Madeira

Madeira, stundum nefnd „Havaí Evrópu“, hefur orðið æ vinsælli meðal íslenskra ferðalanga sem leita að nýrri paradís. Eyjan, sem er staðsett í miðju Atlantshafi, býður upp á óviðjafnanlega náttúrufegurð, milt loftslag og fjölbreytta afþreyingu sem höfðar til ævintýragjarna ferðamanna.
Funchal, höfuðborg Madeira, er full af lífi og menningu. Göngutúr um bæinn leiðir þig fram hjá litríkum markaði, þar sem hægt er að kaupa ferskt grænmeti og ávexti beint frá bændum. Sögulegar byggingar og nútímalegir veitingastaðir eru víða og bjóða upp á allt frá hefðbundnum portúgölskum réttum til nýstárlegra matargerðartilrauna.
Blómaeyjan Madeira með fjölbreyttum gönguleiðum er liggja um þétt skóg- og fjalllendi með einstöku útsýni yfir haf og land er stórkostleg upplifun fyrir þá sem elska útivist. Hægt er að fara í siglingar, kafa í kristaltæru vatni og kanna heillandi lífríki sjávar.
Madeira hefur einnig upp á að bjóða rólegri afslöppun fyrir þá sem vilja hvíla sig. Heilsulindir, sólbaðsstaðir og kyrrlátir garðar bjóða fullkomna leið til að endurnýja sál og líkama. Með fjölbreyttum gistimöguleikum, frá lúxushótelum til heimilislegra gistiheimila, er eitthvað fyrir alla.
Það er ekki að undra að Madeira er að verða nýja uppáhaldseyja Íslendinga. Með sinni einstöku blöndu af náttúru, menningu og afþreyingu er eyjan fullkominn áfangastaður fyrir þá sem leita að nýjum ævintýrum í hjarta Evrópu.

Edinborg

Edinborg, heillandi höfuðborg Skotlands, býður gestum fullkomna blöndu af sögu, menningu og náttúrufegurð. Hún er þess vegna hrífandi áfangastaður fyrir þá sem dreymir um ógleymanlega ferð. Í þessu bloggi kynnumst við betur sígildum töfrum Edinborgar og búum til lista yfir það sem má að taka sér fyrir hendur í borginni, sniðinn að áhugamálum og þörfum fólks sem komið er á efri ár.
Saga og glæsileiki einkenna Edinborg þar sem hún breiðir úr sér um ávalar hæðir undir Sæti Artúrs, hömróttum leifum af æfafornu eldfjalli.

Edinborg: Saga í glæsilegri umgjörð

Borgin er skoskur kjörgripur með Gamla bænum (Old Town) frá miðöldum, mikilfenglegum Nýja bænum (New Town) og öflugu menningarlífi. Heimsókn til Edinborgar gefur fyrirheit um tækifæri til að slaka á, kanna nýjar slóðir og auðga andann. Hún er framúrskarandi áfangastaður fyrir fólk á efri árum, öll aðstaða og þægindi í borginni falla vel að þörfum eldri borgara og heimamenn taka vel á móti gestum.

Það er af nógu að taka í Edinborg:

1. Röltu um gamla bæinn

Byrjaðu ævintýrið í Edinborg með því að kynnast heillandi andrúmslofti á strætum Gamla bæjarins. Njóttu byggingarlistar frá fyrri öldum og röltu eftir Konunglegu mílunni (Royal Mile), aðalstrætinu í Gamla bænum; líttu í leiðinni inn á nær falin afgirt svæði og húsagarða sem geyma menjar um litríka fortíð borgarinnar.

2. Hrífandi útsýni frá Edinborgarkastala

Edinborgarkastali, sem trónir uppi á Kastalakletti (Castle Rock), er frægasta kennileiti Edinborgar og staður sem enginn má sleppa að heimasækja. Þar má sökkva sér niður í sögu Skotlands, sjá Krúnudjásnin og njóta hrífandi útsýnis yfir borgina. Að kastalanum er gott aðgengi og víða hægt að tylla sér niður.

3. Skoðaðu Holyroodhouse höllina

Heimsóttu hina glæsilegu Holyroodhouse höll við endann á Konunglegu mílunni, opinbert aðsetur breska konungsins í Skotlandi. Skoðaðu húsakynni í margra herbergja íbúð konungsfjölskyldunnar og njóttu þess að ganga um fagra hallargarða.

4. Fáðu þér sæti rétt hjá verslunargötunni

Garðarnir við Princes Street (Princes Street Gardens) í hjarta borgarinnar eru friðsæll staður með frábæru útsýni til Edinborgarkastala. Tylltu þér á bekk og njóttu hvíldar frá ys og þys og iðandi mannlífi á næstu strætum. Verslunargatan Princess Street skilur að Gamla og Nýja bæinn.

5. Taktu þér þinn tíma

Edinborg er víðkunn fyrir menningarhátíðir og fjölbreytt listalíf. Kynntu þér hvað er á dagskrá á viðburðum eins og Edinburgh Festival Fringe eða njóttu þess að bregða þér í leikhús. Víða er í boði afsláttur fyrir eldri borgara og gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða.
Edinborg, gædd töfrum liðinna alda, menningarverðmætum og áhugaverðum stöðum með hentugu aðgengi fyrir eldri borgara, er staður þar sem ferðamenn njóta tilbreytingar í Skotlandi, geta slakað á og kynnst ríkulegri menningu. Hvort sem þú ert á göngu um æfaforn strætin í Gamla bænum, skoðar þig um í mikilúðlegum köstulum eða gæðir þér á hefðbundnum skoskum réttum, máttu treysta því að Edinborg er staður þar sem bíður þín fjölbreytileg upplifun, sniðin að áhugamálum þínum og þörfum. Og þess vegna: Settu niður í ferðatöskuna, láttu hrífast af sígildum glæsileika Edinborgar og leggðu upp í minnisstæða ferð um hjarta Skotlands.

Calpe, gimsteinn Spánar

Ef þú ert að skipuleggja væntanlega ferð til Costa Blanca á Spáni þarftu að bæta Calpe við listann, smábæ við ströndina, 67 km frá Alicante, við jaðar Penyal d'Ifac landverndarsvæðisins.
Þegar við komumst á efri ár heldur áfram að freista okkar að fara í ferðalag, upplifa eitthvað nýtt, auðga andann og eignast dýrmætar minningar. Calpe, heillandi smábær við hafið á Costa Blanca á Spáni, er kjörinn áfangastaður fyrir eldra fólk sem leitar að slökun, ævintýrum og hreyfingu sem tekur mið af aldri og getu. Í þessu bloggi könnum við töfrandi heim í Calpe og búum til lista yfir það sem hægt er að taka sér fyrir hendur á þessum slóðum, sniðinn að áhugamálum og þörfum hvers og eins.

Calpe: Sannur demantur á Costa Blanca svæðinu

Í Calpe, mitt á milli Alicante og Valencia, er notalegt Miðjarðarhafs-loftslag, fallegar strendur og menjar um ríkulega sögu sem nær allt aftur til tíma Rómaverja. Tákn og kennileiti staðarins er Penyal d’Ifac (Ifac-klettur), 332 metra hár kalksteinsklettur sem gnæfir á verði yfir strönd-inni og setur sterkan svip á umhverfið. Vingjarnlegir heimamenn og friðsælt andrúmsloft gera Calpe að fullkominni umgjörð fyrir eldri borgara sem leita eftir hressandi og gefandi tilbreytingu.

Hvað er hægt að gera?

1. Njóttu dagsins á ströndinni

Eitt af því sem er skemmtilegast að gera í Calpe er að rölta í hægðum sínum meðfram Arenal-Bol-ströndinni. Mjúk sandfjaran er tilvalinn staður til að slaka á, liggja í sólbaði og hlusta á öldugjálfrið.
Gönguleiðin meðfram ströndinni er hellulögð og auðveld yfirferðar, jafnvel fyrir þá sem eru hreyfihamlaðir. Þá er hægt að setjast víða undir sólskyggni og njóta útsýnisins.

2. Gönguferð um gamla bæinn

Gamli bærinn í Calpe er heillandi völundarhús með þröngum strætum, litríkum húsum og skemmtilegum torgum. Röltu þarna um og gerðu hlé á göngunni með því að líta inn í kaffihús eða einhverja smáverslun.

Ekki sleppa því að skoða Iglesia Antigua (Gömlu kirkjuna) og staldra við á aðaltorginu, Plaza Mayor, þar sem þú getur fengið þér kaffibolla og horft á mannlífið.

3. Uppgötvaðu Penyal d’Ifac landverndarsvæðið

Þeir sem eru til í svolítið ævintýri ættu ekki að sleppa því að heimsækja Penyal d’Ifac landverndarsvæðið. Það getur reynst mörgum fullerfitt að komast alveg upp á topp á Ifac-klettinum en á svæðinu eru stígar, sem er vel við haldið, og gestir geta því skoðað sig um á sínum hraða.

Stórkostlegt útsýni til Miðjarðarhafs og sjálft umhverfið eru allrar fyrirhafnar virði. Ef þú ert ekki fyrir langar gönguferðir geturðu notið þess að skoða einstakt gróðurríki og dýralíf á svæðinu þar sem má finna meira en 300 tegundir af plöntum og fjölmargar fuglategundir.

4. Njóttu matarins

Spænsk matargerð er þekkt fyrir ljúffengt bragðið af réttunum og í Calpe er að finna fjölbreytilegt úrval af matsölustöðum þar sem hver og einn ætti að finna eitthvað við sitt hæfi og smekk.

Prófaðu rétti úr sjávarfangi staðarins á veitingastað við ströndina, t.d. paella og ferskan fisk beint af grillinu. Í mörgum matsölustöðum í Calpe er tekið sérstakt tillit til eldra fólks með góðu aðgengi og starfsfólkið er einkar greiðvikið.

5. Skelltu þér í siglingu

Kannaðu strendurnar í grennd við Calpe með því að bregða þér í siglingu.
Nokkrir aðilar bjóða bátsferðir með leiðsögumanni þar sem gefst færi á að taka lífinu með ró, verma sig í sólinni og njóta án fyrirhafnar náttúrufegurðar meðfram ströndinni. Og hafðu augun opin: Oft má sjá höfrunga að leik í sjónum.

6. Farðu á sögulegar slóðir

Baños de la Reina, „Drottningarböðin“, eru æfaforn staður, frá tímum Rómverja, þar sem eru ker og tjarnir sem notuð voru til fiskeldis.
Staðurinn bregður upp mynd frá ríkulegri fortíð Calpe og þar er tilvalið að eiga notalega stund. Gakktu um rústirnar og njóttu andrúmsloftsins við ströndina.

7. Skemmtun fyrir alla

Í Calpe eru haldnar fjölbreyttar hátíðir og efnt til margs konar menningarviðburða allt árið um kring.
Skoðaðu listann yfir árlega viðburði á staðnum til að finna dagsetningar fyrir viðburði eins og Hátíð Mára og Kristinna eða San Juan brennuna. Á hátíðum eins og þessum gefst tækifæri til að komast í nána snertingu við spænska menningu, tónlist og hefðir.

8. Njóttu þín

Í Calpe eru allmörg heilsuböð og heilsuræktarstaðir þar sem þú getur dekrað við þig með því að fara í nudd, heit böð og meðferðir sem styrkja og yngja kroppinn.
Gerðu þér dagamun með því að slaka vel á og hugsa vel um líkamann.

9. Lærðu jafnvel örlítið í spænsku

Hvernig væri að nota tækifærið og læra svolítið í spænsku á meðan þú ert í Calpe?
Í mörgum tungumálaskólum í Calpe eru haldin námskeið, sniðin fyrir eldri borgara, þar sem má kynnast betur tungu heimamanna og menningu staðarins á fræðandi og skemmtilegan hátt.

10. Býrðu yfir listhneigð?

Virkjaðu sköpunargáfuna með því að fara á vinnustofu fyrir list- og handiðn í umsjá lista- og handverksfólks á staðnum.
Á þessum vinnustofum gefst kostur á að læra ný handtök við allt frá málaralist til leirmunagerðar og búa til fallega minjagripi.
Fallegt umhverfi í Calpe, auðug saga og aðstæður og tækifæri, sem henta eldra fólki sem vill hafa eitthvað fyrir stafni, laða til sín ferðalanga í leit að slökun, hvíld og ævintýrum. Calpe hefur margt að bjóða, sniðið að áhugamálum og þörfum þínum, hvort sem þig langar til að njóta þess að að ganga meðfram ströndum Miðjarðarhafs, kynnast öðru vísi menningu eða njóta spænskrar matargerðar. Þess vegna skaltu setja niður í ferðatöskuna, upplifa ógleymanlegt ævintýri og uppgötva töfrandi heim í Calpe.

Stokkhólmur

Stokkhólmur, höfuðborg Svíþjóðar, iðandi af lífi og fjöri, laðar til sín eldri borgara með einstakri blöndu af sögu, menningu og náttúrufegurð.
Í þessu bloggi skyggnumst við um í töfrandi heimi Stokkhólms og búum til lista yfir það sem hægt er að gera í borginni og tekur mið af óskum þínum og því sem þú hefur sérstakan áhuga á.

Stokkhólmur: Menningarborg

Stokkhólmur stendur að nokkru leyti á mörgum eyjum sem hver hefur sína töfra. Borgin er þekkt fyrir margbreytta sögu sína, söfn á heimsmælikvarða og fallegt útsýni yfir eyjarnar og Löginn (Mälaren). Hún býður gestum að slaka á, skoða og kanna og auðga andann. Vinalegir heimamenn og innviðir, sem taka mið af þörfum eldri borgara, gera Stokkhólm að kjörnum áfangastað fyrir þig.

Hvað er í boði í Stokkhólmi?

Gamli bærinn.

1. Heimsóttu Gamla Stan (Gamla bæinn).

Byrjaðu ferðina í Gamla Stan, Gamla bænum í Stokkhólmi sem hrífur alla sem þangað koma. Steinlögð strætin, litríkar byggingar og söguleg kennileiti skapa heillandi andrúmsloft. Röltu eftir þröngum húsasundum, líttu við í konungshöllinni og skoðaðu þig um í töfrandi smáverslunum og kaffihúsum. Á mörgum af þessum stöðum er gott aðgengi fyrir fólk í hjólastólum.

2. Ekki láta Vasa-safnið framhjá þér fara.

Ferðastu aftur í tímann á Vasasafninu sem hýsir Vasa, einstaklega vel varðveitt herskip frá 17. öld. Í safninu gefst tækifæri til að fræðast um sögu siglinga. Í safninu er nóg af sætum og svæði fyrir eldri borgara þar sem þeir geta tekið sér smáhvíld og notið þannig betur þess sem er í boði.

3. Slakaðu á í Djurgården.

Dýragarðseyjan (Djurgården) er kyrrlát vin í miðjum Stokkhólmi. Fáðu þér gönguferð um gróðurríka garða, njóttu þess að sitja við kyrrlátt flæðarmálið og heimsóttu staði eins og Skansinn, safn undir berum himni þar sem má kynnast sænskum menningararfi. Sporvagnar og golfkerrur eru í boði fyrir þá sem treysta sér ekki í langar gönguferðir.

4. Það bragðast svo vel.

Njóttu þess að gæða þér á hefðbundum sænskum réttum á einum af fjölmörgum veitingastöðunum í Stokkhólmi. Prófaðu sígilda rétti eins og sænskar kjötbollur, síld eða grafinn lax. Á mörgum matsölustöðum er gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða og matseðlar sem taka mið af sérstökum þörfum eldri borgara.

5. Fika-hefðin.

Gefðu þér tóm til að kynnast sænsku „fika-hefðinni“. „Fik“ er eitt af orðunum, sem Svíar nota um kaffi, og „fika“ er heiti á þeim sið að taka sér kaffihlé og þá oft að fá sér sætabrauð með kaffisopanum. Slakaðu á í hlýlegu kaffihúsi, spjallaðu við heimamenn og njóttu stundarinnar. Það ríkir indælt andrúmsloft við kaffibollana í Svíþjóð sem er kjörið fyrir eldri borgara sem vilja setjast niður og safna kröftum áður en lengra er haldið.

6. Konunglegi Djurgården.

Fáðu þér gönguferð um Konunglega Djurgården, undurfallegan skrúðgarð á Djurgården-eyju. Njóttu friðsældar og fallegs útsýnis yfir vatn, fjörð og borg. Meðfram göngustígunum eru bekkir þar sem má tylla sér niður.

7. Sigling milli eyja og hólma.

Stígðu um borð og njóttu þess að sigla í makindum á milli eyja og hólma í Stokkhólmi og kynnast einstakri náttúrufegurð og fuglalífi á þessum slóðum. Allmörg ferðaþjónustufyriræki bjóða skipulegar siglingar á litlum skipum eða bátum með góðu aðgengi fyrir alla aldurshópa.

8. Konunglegar móttökur.

Drottningholm höllin, sem er á mennigarminjaskrá UNESCO, er opinbert aðsetur sænsku konungsfjölskyldunnar. Skoðaðu þig um í höllinni og í fallegum skrúðgörðum og gefðu þér tóm til að líta inn í Kínverska skálann. Við og inni í höllinni eru rampar og lyftur fyrir gesti með hreyfihömlun.

9. Kraftmikil menningarborg.

Stokkhólmur státar af margbreyttu og blómstrandi menningarlífi. Þar eru fjölmörg leikhús, Stokkhólmsóperan og hljómleikasalir þar sem sígild tónlist er höfð í hávegum. Njóttu tónlistar eða leiklistar á einhverjum af þessum stöðum þar sem er í boði á sumum þeirra afsláttur fyrir eldri borgara og gott aðgengi að sætum.

10. Taktu brot af minningum með þér heim.

Líttu við í lista- og handiðnaverslunum þar sem þú gætir fundið fallega minningargripi og handgerð djásn. Og hvernig væri að staldra við á handiðnavinnustofu ef þú hefur áhuga á að reyna þig við hefðbundna sænska handiðn.

11. ABBA safnið.

Verið velkomin í ABBA-safnið í Stokkhólmi, töfrandi upplifun með hinum goðsagnakennda poppkvartett. Komdu inn í dáleiðandi heim Agnethu, Björns, Benny og Anni-Frid með gagnvirkum sýningum sem bregða upp myndum af farsælum ferli þeirra á heimsvísu. Skoðaðu búninga, endurupplifðu ógleymanlega frammistöðu og reyndu jafnvel að blanda saman ABBA-lagi í háþróuðu hljóðveri. Þessi einstaka sýning býður þér að dansa samhliða hólógrafískum vörpum af stjörnunum í ABBA og sökkva þér niður í töfrandi takta í sígildum smellum þeirra. Hvort sem þú ert dyggur aðdáandi eða hlutlaus áhorfandi býður ABBA-safnið upp á grípandi ferðalag um tónlistarsöguna með ABBA.

Heillandi saga Stokkhólms, náttúrufegurð og áhugaverðir staðir, þar sem tekið er vel á móti eldri borgurum, gefa ferðalöngum færi á að upplifa norrænt ævintýri þar sem má slaka á og kanna um leið heillandi heim.
Hvort sem þú reikar um steinlögð stræti í Gamla Stan, upplifir andrúmsloftið í aldagömlu herskipi eða bragðar á sænsku ljúfmeti máttu treysta því að í Stokkhólmi finnurðu ótalmargt sem þú hefur áhuga á og er sniðið að þörfum þínum. Settu því niður í ferðatöskuna, láttu undan freistingunni og komdu í ógleymanlegt ferðalag um hjarta Norðurlanda.

Aðventan í Kaupmannahöfn

Aðventan í Kaupmannahöfn er engri lík þar sem danska hugtakið „hygge“ fær að njóta sín frá degi til dags á þessum æðislega tíma ársins. Aðventan fyrir Dönum er einn huggulegasti tími ársins þar sem vinir hittast, deila mat og eyða „hygge“ stundum með sínu nánasta fólki, með heitu glöggi við hönd að gera klárt fyrir jólin.
Hér höfum við tekið saman hluta af því sem þú mátt ekki missa af á þessum huggulegasta tíma ársins í Kaupmannahöfn.

Vetrarland í Tivoli

Það er ekki hægt að minnast á Aðventuna í Kaupmannahöfn án þess að minnast á Tívolíið. Tívolíið var stofnað árið 1843 og er einn elsti skemmtigarður heims. Þegar vetur rennur upp breytist Tívolí í draumkennt vetrarundraland sem er töfrum líkast.

Kalt og frískandi loft, þúsundir tindrandi ævintýraljósa og yndislegir viðarkofar sem selja allt frá dönsku handverki til ljúffengra hátíðarbragða – andrúmsloftið er ekkert minna en töfrandi. Hægt er að sjá öldruð pör og fjölskyldur rölta hönd í hönd og njóta alls sem Tivoli hefur fram á að bjóða. Hápunkturinn? Dáleiðandi ljósasýningin yfir Tívolívatninu, sem minna á stjörnur sem síga niður rétt innan seilingar. Svo má ekki gleyma hátíðarferðunum, eins og gamla viðarrússibananum, sem vekja upp einstakar nostalgíu tilfinningar.

Jólamarkaðir: Sannkölluð veisla fyrir öll skynfærin!

Jólamarkaðir Kaupmannahafnar marka Aðventuna við opnun 3. nóvember. Þeir eru sannkallaðir hátíð hlýju í kuldanum. Þegar þú gengur um steinsteyptar göturnar fyllast göturnar af lokkandi ilm af ristuðum möndlum, glöggi og hefðbundnum dönskum „æbleskiver“.

Markaðirnir í Nyhavn, með litríku gömlu húsin í bakgrunni, eru sérstaklega grípandi. Básarnir bjóða ýmist upp á handsmíðað handverk, einstakt jólaskraut og danska jólagleði. Vafin inn í hlýja klúta og vettlinga blandast heimamenn og ferðamenn saman á þessari töfrandi og ljúfu hátíðarstund.

Danskur „Julefrokost“

Þegar kemur að veislum kunna Danir að fagna með stæl. Hinn hefðbundni danski „julefrokost“ eða jólahádegisverður er upplifun sem maður ætti ekki að missa af.

Ímyndaðu þér smyrsl af súrsýrðri síld, lifrarpaté, rúgbrauði og ‘frikadeller’ (dönskum kjötbollum), ásamt hugljúfum bjór og drykkjum. Þó sumar uppskriftir hafi gengið í gegnum kynslóðir, bætir hver fjölskylda við sínu eigin ívafi, sem gerir julefrokost að yndislegu matreiðsluferðalagi.

Margir veitingastaðir í Kaupmannahöfn bjóða upp á sína útgáfu af julefrokost í desember. Þetta er yndisleg leið til að sökkva sér niður í danskar jólahefðir.

D’Angleterre tendrar jólaljósin

Hótel d’Angleterre, hefur verið frægt síðan árið 1700, og er orðið merkilegt kennileiti í Kaupmannahöfn. Um jólin fær þetta glæsilega hótel hátíðlega yfirferð sem er tilvalið að sjá.

Á hverju ári er framhlið hótelsins skreytt hrífandi skreytingum sem endurspegla kjarna jólanna og hópast fólk saman til að sjá þegar þau afhjúpa jólaskreytingarnar ár eftir ár. Með mikilli spennu bíður fólk agndofa eftir að rofanum er snúið við og hótelið baðar sig í glæsilegum gylltum ljóma. Þessi atburður táknar opinbert upphaf hátíðartímabilsins fyrir marga Kaupmannahafnarbúa.

Aðventan í Kaupmannahöfn veitir manni ekki einungis notalega tilfinningu heldur býður hún upp á gríðarlega mikla upplifun hvar sem maður er staddur í borginni. Fyrir þá sem eru að leita að hinum sönnu töfrum jólanna þá bíður Kaupmannahöfn þig velkomin/n með sínum gamaldags sjarma og hátíðaranda.