
Stokkhólmur var upphaflega lítill bær sem á víkingaöld var reistur á hólma í skerjagarðinum þar sem hið salta Eystrasalt mætir ferskvatninu frá Mälaren, þriðja stærsta innhafi Svíþjóðar. Stokkhólmur þýður eiginlega „Timbur hólmurinn“ eða hólmurinn þar sem timbur og tré móta umhverfið.

Það var á þessum hólma sem gamli bærinn varð til, „Gamla stan“ eins og hann heitir á sænsku, sem enn stendur og er einkenni borgarinnar. Á hólmanum var auðvelt að verjast árásum óvina á hinum myrku Miðöldum. Frá hólmanum til austurs teygir skerjagarðurinn sig langt út á Eystrasaltið og þar sem siglingaleiðin er hvað þrengst reistu Svíar sér virki til að stjórna skipaumferðinni. Til vesturs liggur siglingaleiðin inn Mälaren og alla leið til Uppsala þar sem miðaldakirkjan reisti höfuðstöðvar sínar. Þar er enn að finna stærstu kirkju á Norðurlöndum, Uppsaladómkirkju. Um 1500 var borgin við sundin fyrst kölluð „Feneyjar norðursins“ í rituðum heimildum. Það voru Hansakaupmennirnir þýsku sem lýstu staðnum þannig og skrifuðu að hólmurinn væri … „virki og verslunarmiðstöð Svíanna, varinn frá náttúrunnar hendi og af mikilli byggingarlist. Borgin á hólmnum liggur við vatnið eins og Feneyjar“. Já, það var snemma margt líkt með Stokkhólmi og Feneyjar.

Eftir því sem tímar liðu þéttist byggðinn á hólmanum og kringum hólmann. Karl XII konungur reisti þar konungshöllina sem enn stendur um 1700. Það var á þeim tíma þegar Svíþjóð var stórveldi og réði yfir öllum löndum kringum Eystrasaltið og langt suður í Þýskaland. Enda höllin engin smásmíð. Á hólmanum er líka að finna dómkirkjuna, „Storkyrkan“, og þinghúsið var reist á nærliggjandi hólma, „Helgeandsholmen“. Þannig að enn í dag er Gamla stan hjarta Svíþjóðar. Nú er öll umferð bifreiða bönnuð um Gamla stan þar sem yndislegar, þröngar göngugötur mynda net milli fornra torga og litlar búðir og hverskonar veitingahús blandast saman í dásamlegu völundarhúsi. Sem er umkringt hafinu. Þarna er að finna Nóbelshöllina, torgið þar sem frægasti jólamarkaður Stokkhólms er haldinn ár hvert, þýsku kirkjuna, lífverði konungs á vappinu og margt, margt fleira. Það er meira að segja hægt að rekast á núverandi konung Svíþjóðar þarna á göngunni, Karl XVI Gústaf, en hann er mikill útivistarmaður og elskar að fara í gönguferð um hólmann. Eða að bregða sér á skauta á sundunum þegar ísa leggur á köldum vetrum.

Aðal göngugatan í Gamla stan, Västerlånggatan, liggur yfir brýrnar sem tengja þinghúsið við konungshöllina og beint yfir á Drottningargötuna, sem er stærsta göngu og verslunargata borgarinnar. Þar iðar allt af lífi frá morgni til kvölds og langt fram á nætur. Já Gamla stan er hjartað og kringum hjartað byggðist borgin. Í dag búa um 800.000 manns í Stokkhólmi allt í kringum hólmann þar sem borgin fæddist. Fjöldinn teygir sig upp í 2.800.000 þegar stór-Stokkhólmur er tekinn með og verður þannig stærsti byggðarkjarni á Norðurlöndum. Byggðin stendur nú á gömlum melum og hólmum kringum Gamla stan og teygir sig yfir í skerjagarðinn þar sem hvert hverfi hefur sitt einkenni og er eins og borg í borginni.

Þar er að finna … Södermalm sem er heimur út af fyrir sig með öllum sínum frábæru leikhúsum og veitingastöðum. Östermalm með háskólunum, útvarps og sjónvarpshverfinu, útivistarsvæðunum og höfninni þaðan sem ferjurnar sigla til Finnlands og Álandseyja og Eystrasaltsríkanna og Póllands. Norrmalm sem er miðborg Stokkhólms nútímans með öllum sínum verslunum, veitingahúsum og mannlífi. Þar nærri er Karólínska sjúkrahúsið þar sem margir Íslendingar hafa fengið þjónustu og þekkja vel.

Kungsholmen þar sem ráðhúsið stendur, eitt af kennileitum borgarinnar….,,,,,og síðast en ekki síst Djurgården þar sem er að finna eitt stærsta útivistarsvæði í höfuðborg í heiminum. Þar liggur Skansen, húsdýragarðurinn sem er eins og Svíþjóð í vasaútgáfu, Gröna Lund, Tívolí Stokkhólmsbúa, Abba safnið sem óþarft er að kynna, Vasasafnið með herskipinu Vasa er sökk á sundunum við Stokkhólm árið 1628 í jómfrúar siglingu, Norræna safnið, Víkingasafnið, Brennivínssafnið og ótal mörg önnur söfn. Inn á milli eru göngustígar og veitingahús, barir og búðir á hverju horni. Allt um kring og nærri er skógurinn og hafið, Mälaren og Eystrasalt, sætt og salt eins og Stokkhólsbúar segja.

Besta leiðin og skemmtilegasta til að ferðast milli allra hólma og mela og skerja Stokkhólms er að taka það sem ég kalla bátastrætóinn. Bátastrætó siglir fram og aftur um borgina, lengst út í skerjafjörðinn og út á eyjarnar fyrir utan þar sem Eystrasaltið smátt og smátt tekur yfirhöndina. Til dæmis er hægt að skjótast í bátastrætó frá Djurgården yfir í Gamla stan. Eða í miðbæinn. Það er ævintýr að sigla þarna um sumar, vetur, vor og haust og kostar ekki meira en einn miði í strætó. Svo er auðvitað hægt að taka sér ferð með túristabát, eða fara í rækjuveislu á siglandi veitingastað. Hafið býður upp á óteljandi möguleika.

Þegar allt hefur verið sagt um borgina er þó aðalatriðið eftir sem erfitt er að koma í orð. Það er fegurð borgarinnar. Sumir segja að Stokkhólmur sé fallegastur að vori, þegar kirsuberjatrén blómstra í lok apríl í konunglega trjágarðinum í miðborginni. Aðrir að það sé ekkert miðað við á sumrin þegar hægt er að tylla sér við vatnið, Mälaren eða Eystrasaltið og veiða eða sitja úti á útiveitingahúsi á fallegu kvöldi með ljúfar veigar og horfa á mannlífið blómstra. Fegurð borgarinnar að hausti er öðrum efst í huga, þegar blöðin falla af trjánum og litskrúð skógarins er eins og listaverk. Sjálfum þykir mér borgin fallegust að vetri þegar snjórinn þekur allt, hafið frís og kuldinn sígur niður í mínus tuttugu gráður. Þá kvikna kertasljósin í búðunum og veitingahúsunum, ilmurinn af jólaglöggi og piparkökum breiðist yfir borgina, skógurinn klæðir sig í vetrarskrúð og hægt er að skella sér á skauta og skíði í miðborginni með kónginum og öllum hinum Svíunum.
Þórhallur Heimisson