Þær eru margar ástæðurnar eins og við vitum, sem búa að baki því að ákveðum að skella okkur í ferðalag. Okkur langar kannski að sjá eitthvað nýtt eða endurnýja kynni við staði sem við höfum ekki lengi séð eða heimsótt. Ef til vill er það maturinn, sagan, umhverfið og fólkið á framandi stöðum sem heillar okkur. Það getur líka verið löngunin til að upplifa góða hluti með einhverjum sem okkur þykir vænt um. – Eða jafnvel áhugi okkar á því að kynnast nýju og kátu fólki í skemmtilegum ferðahóp.
Við sem ferðumst saman á vegum Ferðaskrifstofu eldri borgara gerum það einmitt vegna þess að okkur finnst ferðirnar okkar saman uppfylla þessar væntingar okkar. Það hef ég sjálfur reynt margoft sem leiðsögumaður með þessu frábæra fólki sem kýs að ferðast með ferðaskrifstofunni. Úr verða kynni sem endast og eflast og dýrmætar minningar sem ylja okkur á dimmum vetrarkvöldum.

En skemmtilegast af öllu er ef til vill hið óvænta. Eins og þegar gamlir vinir hittast í ferðunum okkar án þess að hafa haft hugmynd um það fyrir fram. Þannig endurnýjast gömul og góð kynni og verða sem ný. Af slíku hef ég heyrt margar frásagnir. Eins og til dæmis þessa sem er alveg ný og ég læt fljóta með hér, með leyfi þeirra er við sögu koma.

Á myndinni sem hér að ofan eru þeir vinirnir Sigurður Ingi Guðmundsson og Halldór Runólfsson. Þeir voru í sitt hvoru náminu í Barcelona árið 1970, hittust þar og lentu í ýmsum ævintýrum saman eins og ungra manna er siður. 

 

Síðan liðu hvorki meira né minna en 55 ár.

Þá hittust gömlu vinirnir algerlega óvænt á Madeira í ferð með Ferðaskrifstofu eldri borgara, núna, í byrjun mars árið 2025. Eins og að líkum lætur varð mikill fagnaðarfundur hjá þeim félögum og gamlir tímar rifjaðir upp.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem gamlir vinir eða vinnufélagar hittast í hinum rómuðu ferðum Ferðaskrifstofu eldri borgara þar sem gleði og ánægju eru í hávegum höfð meðal farþega.

Já það er gaman þegar vinir hittast og ferðast saman.

Ekki er þó síður gaman að ferðast einn með Ferðaskrifstofu eldri borgara. Því þar er enginn einn í raun, heldur allir hluti af ferðahópnum þar sem tækifæri gefast til að kynnast nýju fólki og eignast góða vini.

Fátt er dýrmætara en góðir vinir, gamlir og nýir og góðra vina fundur.

Því og segir í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Vinafundur:

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,
er gleðin skín á vonarhýrri brá?

Eins og á vori laufi skrýðist lundur,
lifnar og glæðist hugarkætin þá.
Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.

Þórhallur Heimisson