Calpe city and Penon de Ifac 01

Calpe

Calpe city and Penon de Ifac 01
Costa Blanca, eða Hvíta ströndin er landsvæði á austur Spáni sem er mörgum Íslendingum að góðu kunnugt. Það nær frá Valencia í norðri og að La Manga skaganum svokallað í suðri. Þar eru margir Íslendingar búsettir ýmist í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði og búa þar lengur eða skemur. Þangað hafa líka margir sótt yndislegt strandlíf í gegnum árin. Margir fallegir spænskir bæir og sjávarþorp prýða hvítu strandlengjuna, meðal annars Calpe sem er ein af perlum svæðisins. Þessi ljúfi strandbær býður upp á eitthvað fyrir alla sem þangað leggja leið sína, hvort sem menn eru náttúruunnendur, sögunördar, matgæðingar eða einfaldlega ferðamenn í leit að ljúfum dvalarstað. Þar blandast saman skemmtilega nútímalegt strandlíf og gamla spænska bæjar stemmningin sem er svo einstök.

Í Calpe búa um 28.000 manns þannig að bærinn er aðeins minni en Hafnarfjörður. Bæjarstæðið er einstaklega fallegt. Þar skiptast á ljúfar strandir, háir klettastallar og vogskornar víkur.

Calpe city Mediterranean Sea 02

Tákn staðarins er Pena de Ifach kletturinn eða fjallið sem teygir sig út í hafið og gnæfir yfir umhverfinu. Þetta tignarlega fjall verða allir að skoða sem þangað koma, þykir mér allavega. Tindurinn nær um 332 metra hæð og kletturinn er náttúruverndarsvæði og fuglaverndarsvæði. Góðar gönguleiðir eru upp á klettinn frá bænum þaðan sem hægt er að njóta útsýnis yfir hafið og umhverfið.

Gönguleiðirnar sem í boði eru henta öllum, hvort sem er fjölskyldum, eldri borgurum eða alvönum fjalla klifrurum. Hver og einn getur valið þá leið sem hentar honum best.

Penon de Ifach mountain Calpe 03
Útsýnið yfir Calpe frá Pena de Ifach.

En það er margt annað sem bærinn lumar á. Gamla Calpe með fornu kirkjunni er unaðsreitur, maturinn í veitingahúsum bæjarins gleður bragðlaukana og golfvellirnir eru skemmtilegir fyrir þau sem hafa áhuga á golfi. Calpe býður líka upp á margar og ólíkar strandir, allt frá hinni líflegu og fjörugu Playa del Arenal yfir í minni og kyrrlátari strendur eins og Playa de la Fossa.

Sagan hefur mótað mannlífið á þessum fallega stað. Calpe býr yfir ríkri sögu eins og öll strandlengjan, sögu sem teygir sig allt aftur fyrir Rómaveldi. Gamla virkið og varðturninn Torreon segja mikla sögu um átök fyrri tíma. Þarna hefur verið búseta allt frá steinöld. Karþagómenn ríktu yfir ströndinni um tíma, Rómverjar byggðu höfnina og gerðu bæinn að mikilvægri verslunarmiðstöð um aldaraðir. Eftir fall Rómaveldis lögðu arabar undir sig Calpe þangað til konungur Aragons tók yfir svæðið á 13. öld. Calpe varð síðan hluti af Spánarveldi eftir sameiningu Aragons og Spánar um 1500. Íbúar urðu fyrir barðinu á sjóræningjum eins og Íslendingar á 17. öldinni. Þaðan rændu sjóræningjar frá Tyrkjaveldi til dæmis um 315 manns árið 1637, 10 árum eftir Tyrkjaránið átti sér stað á Íslandi. Þannig tengjumst við Íslendingar Calpe yfir aldirnar.

Old town of Calpe 04
Gamli bærinn í Calpe, kirkjan og múrarnir fornu

Öll þessi mikla saga hefur skilið eftir sig ummerki sem gaman er að skoða og kanna, eins og til dæmis rómversku baðhúsarústirnar og fiskimarkaðinn. En áhrifin eru ekki síður að finna í matargerðinni því í Calpe er hægt að finna áhrif frá öllum þessum tímaskeiðum á ótal veitingahúsum og matarstöðum. Auðvitað er fiskurinn í forsæti þarna við hafið enda væri annað undarlegt. Mikil áhersla er lögð á að bjóða upp á bæði skelfisk og annan matarfisk sem matreiddur er að hefðbundnum spænskum hætti en gjarnan með arabísku ívafi. Meðal sérrétta svæðisins er Paella Valenciana og Fideua. Flestir lesendur kannast án efa við Paellu sem er elduð á stórri pönnu úr hrísgrjónum, kjötmeti eða fiskréttum og grænmeti.

Fideua minnir á Paellu en uppistaðan eru núðlur í stað hrísgrjóna.

Fideua in Calpe 05
Fideua.
Ég gæti haldið lengi áfram að segja frá matnum sem veitingahúsin í Calpe bjóða upp á og bæjarlífinu sem heillar. En umfram allt er bærinn vin allra sem vilja líka njóta nálægðar við fallega náttúru, sögu og mannlíf. Enda er bærinn Calpe gjarnan kallaður gimsteinn Hvítu strandarinnar, Costa Blanca.

Þórhallur Heimisson

Helsinki Cathedral 01

Helsinki

Helsinki Cathedral 01
Ég heimsótti Finnland fyrst árið 1983, þegar ég var 22 ára og nemi í norrænum fræðum í lýðháskóla í Danmörku. Ég valdi mér þá sérstaklega Finnland að viðfangsefni. Hluti af náminu fólst í því að fara til Finnlands og kynna sér land og þjóð undir leiðsögn heimamanna sem tóku á móti mér og félögum mínum frá Danmörku með mikilli hlýju. Þetta var yndislegur tími, í hörku frosti um miðjan vetur og síðan hef ég verið ástfanginn af Finnlandi. Enda Finnar á margan hátt líkir Íslendingum, sérstaklega húmorinn sem er þungur og svartur eins og íslenskur sandur. Samt hafa þau aftur og aftur verið kosin hamingjusamasta þjóð í heimi. Þá kom ég líka fyrst til Helsinki, eins og borgin heitir á finnsku, eða Helsingfors eins og hún heitir á sænsku. Finnland er tvítyngt land, þar sem búa um 300.000 sænskumælandi Finnar, flestir við vestur ströndina frá Turku, eða Åbo eins og hún heitir á sænsku, til Helsinki. Finnar eru í dag um 5.7 milljónir.

Nöfnin tvö, Helsinki og Helsingfors, Turku og Åbo, segja okkur margt um sögu Finnlands og Helsinki, eins og borgin er iðulega nefnd á Íslandi. Helsinki er höfuðborg Finnlands. Borgin var stofnuð árið 1550 við mynni Helsingjaár, en nafn árinnar býr í nafni borgarinnar, Helsinki. Það var Gustav Vasa konungur Svíþjóðar sem lagði grunninn að Helsinki, sem þá var sænsk borg, enda Finnland og Svíþjóð eitt og sama landið á þessum horfnu öldum. Borgin hefur auðvitað tekið stakkaskiptum síðan þá. Finnland, sem var austur hluti sænska ríkisins, var hertekið af Rússum og gert að stórhertogadæmi innan rússneska keisaradæmisins árið 1809. Landið hélt ákveðinni sjálfsstjórn sem hluti Rússlands. Finnland varð sjálfstætt ríki árið 1917 og Helsinki höfuðborg þess. Finnar hafa löngum þurft að verjast ágangi granna síns í austri og borgin skemmdist í Síðari heimsstyrjöldinni vegna loftárása Sovétmanna en hefur löngu náð fyrri fegurð.

Í dag er Helsinki þróttmikil og vaxandi borg þar sem tækni, hönnun og umhverfi fá að njóta sín. Þar búa nú um 800.000 manns. Borgin er lifandi menningarmiðstöð og býr yfir mörgum heimsfrægum kennileitum eins og lútersku dómkirkjunni, Uspenski dómkirkjunni sem er rétttrúnaðarkirkja, gamla markaðnum, hótel Torni sem var áður fangelsi leyniþjónustu Rússa, Klettakirkjunni, Ólympíuleikvanginum og minnismerki Síbelíusar svo fátt eitt sé nefnt.

Borgin stendur við Finnska flóa og liggur vel við ferjuleiðum um alla Evrópu. Flugvöllurinn er líka miðpunktur í Asíuflugi. Borgin nýtur þannig góðs af straumum víða að. Sjálfir eru Finnar öðrum fyrirmynd í skólamálum, félagsmálum og hönnun. Helsinki er þekkt hönnunarborg. Þar er heimili Marimekko ogMúmínálfarnir setja að sjálfsögðu svip á bæinn. Helsinki er líka mikil matarborg þar sem finna má skemmtileg veitingahús af öllu tagi þar sem bæði er lögð áhersla á góðan mat, hönnun að sjálfsögðu sem og skemmtilegt og hlýlegt viðmót.

Suomenlinna sea fortress in Helsinki 04

Helsinki er umvafinn ótrúlegri náttúrufegurð, skógi, hafi og skerjagarði, fegurðin er einstök hvort sem er sumar þegar sólin skín eða á veturna þegar ísinn leggst að. Í skerjagarðinum er að finna virkið Suomenlinna eða Sveaborg sem var byggt 1748 gegn Rússum en er i dag á heimsminjaskrá Unesco. Þangað er hægt að sigla frá höfninni í Helsinki og eiga þar skemmtilegan dag.

Hver sem heimsækir Helsinki fer frá borginni með hlýjar minningar. Umfram allt er manni alltaf vel tekið af heimamönnum, sem hafa orð á sér fyrir að vera þungir í lund, en undir yfirborðinu slær hjarta úr gulli.

Þórhallur Heimisson

Berlin cathedral

Berlín

Berlin cathedral
Hvert sem ferðamaður fer í Berlín blasir sagan við. Þar blandast sagan einhvern vegin á sjálfsagðan hátt við púls mannlífsins. Klassískar byggingar og listaverk speglast í nýlistinni og ljúfum nútímalegum þokka. Fáar borgir Evrópu hafa á undanförnum árum verið sóttar heim af eins mörgum ferðalöngum og einmitt Berlín. Enda er Berlín glæsileg höfuðborg hins sameinaða Þýskalands og horfir björtum augum fram á veginn samtímis því sem hún er óumdeilanlega einna fremst meðal jafningja í Evrópu.
Brandenburg gate Berlin

Berlín lifir á margan hátt á sögu sinni, þó sagan hafi vissulega oft verið erfið. Borgin var aðalleikvangur tveggja einræðisstjórna á síðustu öld, nasismans og kommúnismans, sem skildu eftir sig sviðna jörð og meiri hrylling en áður hefur þekkst í sögu mannkyns. Sagan teygir sig auk þess langt aftur í aldir, til tíma Prússaveldis og langt aftur fyrir það. Þessi saga sem blasir við á hverju götuhorni er segullinn sem laðar marga gesti að borginni. Engin önnur borg getur boðið ferðalangi upp á stutta gönguferð sem á örfáum mínútum tengir saman Bebelplatzs, þar sem bókabrennur nasista fóru fram 10. maí 1933, og heimsókn í DDR safnið þar sem sögu Austur Þýskalands og kommúnistastjórnarinnar eru gerð skil. Þar er líka að finna svo fátt eitt sé talið hið áhrifamikla Denkmal fur die ermorderten Juden Europas, eða minnismerkið um helförina. En einnig Branderburgar hliðið sem er tákn borgarinnar, byggt í skínandi nýklassískum stíl, endurbyggða dómkirkjuna sem var eyðilögð í lok seinna stríðs og minnismerkið um Berlínarmúrinn sem geymir hluta af múrnum er skildi að austur og vestur Berlín á tímum kalda stríðsins. 

Checkpoint Charlie Berlin

Enginn vill heldur missa af að sækja heim Check Point Charlie sem á þeim tíma var eina landamæra stöðin milli austurs og vesturs. Þar geta gestir í huganum tekið undir með eldræðu John F. Kennedy er hann hélt árið 1963 í borginni: „Ich bin ein Berliner“ eða „ég er Berlínarbúi“ . Svo má ekki gleyma að sækja heim Þinghúsið, keisarahöllina sem einnig hefur verið endurreist og söfnin stórkostlegu á Museumsinsel. Safnaeyjan geymir fimm af mikilvægustu og frægustu söfnum Berlínar. Meðal annars Pergamon safnið þar sem sagt er finna megi hlið heljar ef trúa má sögusögnum.

Já, sagan blasir svo sannarlega við hvert sem ferðalangur snýr sér í Berlín.

Alexanderplatz Berlin

Ákaflega þægilegt er að ferðast um borgina gangandi eða með almenningssamgöngum og sækja heim alla þessa staði. Sjálfur elska ég að hjóla um Berlín. Hún er mín uppáhalds hjólaborg þar sem hjólastígarnir mynda þéttriðið net um alla borgina og hægt er að þeysa milli hinna margbrotnu og ólíku borgarhluta hennar á örskotsstundu. Sérstaklega „Mitte“ eða miðjuna, þar sem er að finna hjarta Berlínar með ráðhúsinu, sjónvarpsturninum, Alexanderplatz, safnaeyjunni fyrrnefndu og hinni einstaklega fallegu og rómantísku breiðgötu „Unter den Linden“ sem rekur rætur sínar aftur á 17. öld.

Tiergarten Berlin

Berlín er heimaborg tæplega fjögurra milljóna íbúa. Ef það er sagan og menningin sem dregur túrista til Berlínar, þá eru það allt önnur málefni sem brenna á heimamönnum í sínu daglega lífi. Fyrir nokkru gaf rithöfundurinn Jens Biskey út bókina: „Berlin-Biografie einer grossen stad“ eða Berlín – ævisaga stórborgar. Í bókinni reynir hann eins og svo margir aðrir að átta sig á því hvað það er sem veldur þessum mikla áhuga á Berlín í samtíma okkar. „Hingað eru allir velkomnir“ skrifar hann. „Margir flytja til Berlínar til að láta drauma sína rætast og losna undan böndum sem binda þá við fortíðina. Þannig er Berlín borg framtíðarinnar og draumanna. Maður þarf að eins að hafa búið í Berlín í ein þrjú ár til að geta talist „Berliner“. Í öðrum borgum Þýskalands segir hann, er maður alltaf innfluttur, þó maður hafi búið þar stærsta hluta ævinnar. Ætli það eigi ekki við víða?

Já, Berlín bíður ferðalang velkominn með karrí pylsum, þægilegu veðri, góðum bjór og bjórgörðum, spennandi næturlífi, glitrandi verslunar hverfum og skógi vöxnum útisvæðum. Borgin hefur eitthvað fyrir alla sem þangað koma og breytir þeim á svipstundu í “ein Berliner”

Þórhallur Heimisson

Sigurdur Ingi og Halldor

Vinafundur

Sigurdur Ingi og Halldor
Þær eru margar ástæðurnar eins og við vitum, sem búa að baki því að ákveðum að skella okkur í ferðalag. Okkur langar kannski að sjá eitthvað nýtt eða endurnýja kynni við staði sem við höfum ekki lengi séð eða heimsótt. Ef til vill er það maturinn, sagan, umhverfið og fólkið á framandi stöðum sem heillar okkur. Það getur líka verið löngunin til að upplifa góða hluti með einhverjum sem okkur þykir vænt um. – Eða jafnvel áhugi okkar á því að kynnast nýju og kátu fólki í skemmtilegum ferðahóp.
Við sem ferðumst saman á vegum Ferðaskrifstofu eldri borgara gerum það einmitt vegna þess að okkur finnst ferðirnar okkar saman uppfylla þessar væntingar okkar. Það hef ég sjálfur reynt margoft sem leiðsögumaður með þessu frábæra fólki sem kýs að ferðast með ferðaskrifstofunni. Úr verða kynni sem endast og eflast og dýrmætar minningar sem ylja okkur á dimmum vetrarkvöldum.

En skemmtilegast af öllu er ef til vill hið óvænta. Eins og þegar gamlir vinir hittast í ferðunum okkar án þess að hafa haft hugmynd um það fyrir fram. Þannig endurnýjast gömul og góð kynni og verða sem ný. Af slíku hef ég heyrt margar frásagnir. Eins og til dæmis þessa sem er alveg ný og ég læt fljóta með hér, með leyfi þeirra er við sögu koma.

Á myndinni sem hér að ofan eru þeir vinirnir Sigurður Ingi Guðmundsson og Halldór Runólfsson. Þeir voru í sitt hvoru náminu í Barcelona árið 1970, hittust þar og lentu í ýmsum ævintýrum saman eins og ungra manna er siður. 

 

Síðan liðu hvorki meira né minna en 55 ár.

Þá hittust gömlu vinirnir algerlega óvænt á Madeira í ferð með Ferðaskrifstofu eldri borgara, núna, í byrjun mars árið 2025. Eins og að líkum lætur varð mikill fagnaðarfundur hjá þeim félögum og gamlir tímar rifjaðir upp.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem gamlir vinir eða vinnufélagar hittast í hinum rómuðu ferðum Ferðaskrifstofu eldri borgara þar sem gleði og ánægju eru í hávegum höfð meðal farþega.

Já það er gaman þegar vinir hittast og ferðast saman.

Ekki er þó síður gaman að ferðast einn með Ferðaskrifstofu eldri borgara. Því þar er enginn einn í raun, heldur allir hluti af ferðahópnum þar sem tækifæri gefast til að kynnast nýju fólki og eignast góða vini.

Fátt er dýrmætara en góðir vinir, gamlir og nýir og góðra vina fundur.

Því og segir í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Vinafundur:

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,
er gleðin skín á vonarhýrri brá?

Eins og á vori laufi skrýðist lundur,
lifnar og glæðist hugarkætin þá.
Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.

Þórhallur Heimisson

Paris 09

París

Paris 09
Um leið og þú stígur fæti í París ertu orðinn hluti af borginni. Það upplifði ég í fyrsta sinn þegar ég kom þangað 22 ára gamall. Ég var þá á ferð um Evrópu í bílaleigubíl ásamt vinum mínum. Bílinn höfðum við tekið að leigu í Lúxemborg eins og margir gerðu á þessum árum. Þaðan blússuðum við til Parísar. Við komum í borgina seint um kvöld, skildum bílinn eftir í bílageymslu fyrir utan miðborgina og brunuðum með neðanjarðarlestinni inn að Ile de la Cite, eyjunni í miðri Signu, sem hefur verið hjarta Parísar frá upphafi.
Paris Shakespeare And Company

Við höfðum ekki pantað gistingu en reikuðum um Latínuhverfið þangað til við rákumst á ódýrt gistiheimili nálægt Shakespeare and Company, bókabúðinni fornu sem síðar átti eftir að verða heimsfræg. Þá gat maður ranglað þangað inn og látið sig hverfa í völundarhúsi herbergja, bóka og blaðastafla búðarinnar. Nú er biðröð fyrir framan búðina og gestum hleypt inn í litlum hópum.

Paris 13

Ég man þegar ég gekk út á göngugöturnar þarna í Latínuhverfinu í fyrsta sinn: Fljótið Signa sem liðaðist hjá; öll litlu veitingahúsin í göngugötunum; súkkulaðibrauðið sem ég keypti mér í morgunverð og kaffið, sem var það besta sem ég hafði smakkað; rök og gamaldags neðanjarðarlestin; hláturinn á útiveitingahúsunum og öll samtölin sem maður heyrði eins og lækjarnið á meðan skálað var í rauðvíni og freyðivíni yfir ostabakka; þröngar göngugöturnar sem liðuðust eins og ormar um borgina og runnu saman við breiðgöturnar; kastaníutrén; hallirnar; söfnin; Effelturninn

Að ekki sé minnst á mannlífið á götunum þar sem öllu ægði saman. 

Þó árin hafi liðið er tilfinningin alltaf sú sama þegar ég kem til Parísar. Þessi upplifun af frelsi, lífsgleði og fegurð lífsins í öllum sínum myndum sem einkennir borgarlífið. Auðvitað hefur borgin breyst. Alveg eins og ég varð hluti af hjartslætti og sögu borgarinnar þarna í fyrsta sinn hafa allir þeir sem þangað koma markað hana með sinni sögu. Eða ef til vill er ekki til nein ein saga sem hægt er að segja um París. Alveg eins og París er ekki ein borg. Hún er margar borgir með hver sína sögu, margar borgir inni í borginni.

Saga Evrópu og saga Parísar verða ekki aðskilin. Það var Júlíus Sesar hinn rómverski hershöfðingi sem stofnaði borginaLutetia Pariseriorum árið 53 fyrir Krist. Nafnið fékk hún af keltneska þjóðflokknum sem bjó á eyjunni úti í Signu þegar Júlíus kom þangað. Þeir kölluðust Parisier. 

Eftir að Rómaveldi féll var það Klodvik konungur og drottning hans Clotilda sem gerðu París að höfuðborg Frankanna árið 508. Frankaríkið varð síðan að Frakklandi eftir því sem aldir liðu. Þannig að frá fyrstu tíð hefur París verið miðja Frakklands. 
Forfeður okkar víkingarnir herjuðu síðar á borgina sem varð stærsta borg Evrópu á hinum myrku miðöldum. Höfuðkirkju borgarinnar, Notre-Dame, var byrjað að byggja árið 1163 og háskólinn, Sorbonne var stofnaður 1257. Kringum hann reis síðan Latínuhverfið þar sem stúdentar frá öllum hornum Evrópu söfnuðust saman. Þangað sigldi til dæmis Sæmundur fróði okkar frá Íslandi til að stúdera í Svarta skóla. Nú hafa veitingahúsin tekið yfir þar sem stúdentarnir áður réðu ríkjum.
Paris 15

Það var á götum Parísar sem franska byltingin hófst árið 1789 sem leiddi til aftöku síðasta konungs Frakka Lúðvíks XVI og konu hans Marie-Antonette og síðar krýningar Napóleons keisara og Napóleonsstyrjaldanna sem enduðu með ósigri Napóleons viðWaterloo árið 1815. Í dag er hægt að heimsækja gröf Napóleons i Les Invalides sem einnig er safn franska hersins. Napólen er frægur fyrir margt, ekki aðeins herfarir sínar. Það var til dæmis hann sem fann upp á númerakerfi húsa sem enn er við líði um víða veröld. Það var síðan Napóleon III sem hannaði hverfaskipulag Parísar, Paris arrondissement, sem skipar borginni í 20 hverfi kringum Il de la Cite, eyjuna gömlu. En eins og fyrr segir er hvert hvefi eins og borg í borginni. Enda voru mörg þessara hverfa upphaflega sjálfstæðir bæir sem seinna urðu úthverfi borgarinnar. París varð síðan höfuðborg franska heimsveldisins á 19. öld og áhrif nýlendnanna má sjá alls staðar í mannlífinu, í matargerð, tónlist, myndlistinni, bókmenntunum og menningu borgarbúa.

Paris 14

Já saga Parísar er rík og spennandi: Átökin við Þýskaland á 19. og 20. öldinni, Impressionisminn, endurteknar byltingar og slagorðin „Frelsi, jafnrétti og bræðralag“, Effelturninn, Louvre safnið og dauði Díönu prinsessu, allt er þetta og svo miklu, miklu meira hluti af París. Um leið hefur París og saga Parísar haft svo mikil áhrif á okkur öll. Borgin hefur líka þurft að þola erfiða atburði. Eins og hryðjuverkaárásina árið 2015 þegar ráðist var á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo og 12 manns létust. Í nóvember sama ár dóu 130 manns í hryðjuverkaárásum. Þá eins og svo oft áður á erfiðum tímum hafa borgarbúar snúið bökum saman. 

Paris 10

Umfram allt er París borg ástarinnar. Ástfangin pör heimsækja brúnna Pont des Arts til að hengja hengilás með nöfnum sínum  á brúarhandrið. Sem tákn um óendanleika ástarinnar. Upphaflega brúin var reist af Napóleon keisara og var fyrsta járn brú yfir Signu. Brúin skemmdist vegna sprengjuárása bæði í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni, hrundi og var síðan endurbyggð. Nú glitra þúsundir hengilása á brúnni í sólskininu. Það er að segja, þangað til borgarstarfsmenn koma og klippa þá burt svo pláss sé fyrir nýja. „Það er bara til ein sönn hamingja í lífinu: að elska og að vera elskaður“ skrifaði Lucile Dupin á sínum tíma. Parísarbúar eru örugglega sammála.

Paris 03

Við upphaf 21. aldarinnar er París enn ein af mikilvægustu borgum heimsins. Þar búa nú um 2000.000 í miðborg Parísar en 13.000.000 ef stór-París er talin með. Þar er að finna höfuðstöðvar margra af helstu alþjóðastofnunum samtímans, meðal annarra OECD og UNESCO. Hvergi í heiminum er boðið upp á fleiri alþjóðaráðstefnur en í París og París er miðstöð bæði flugsamgangna og lestarkerfis Evrópu. Enda var EM í fótbolta haldið þar árið 2016 og Ólympíuleikarnir árið 2024. 

Sacre Coeur in Montmartre Paris

Eins og ég sagði hér í upphafi verður ferðalangur sem til borgarinnar kemur samstundis hluti af þessum mikla hjartslætti sem París er. Borgin býður sífellt upp á eitthvað nýtt. Best verður París þó að kvöldi til, þegar þreyttur ferðalangur tyllir sér niður á einhverjum af hinum óteljandi veitingahúsum hennar, í Latínuhverfinu, við les Halles, uppi á hæðinni þar sem Montmartre kirkjan gnæfir yfir borginni, hjá Rauðu myllunni eða nálægt Signubökkum, og gleymir sjálfum sér í hjartslætti mannlífsins.

Þórhallur Heimisson