Calpe city and Penon de Ifac 01

Calpe

Calpe city and Penon de Ifac 01
Costa Blanca, eða Hvíta ströndin er landsvæði á austur Spáni sem er mörgum Íslendingum að góðu kunnugt. Það nær frá Valencia í norðri og að La Manga skaganum svokallað í suðri. Þar eru margir Íslendingar búsettir ýmist í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði og búa þar lengur eða skemur. Þangað hafa líka margir sótt yndislegt strandlíf í gegnum árin. Margir fallegir spænskir bæir og sjávarþorp prýða hvítu strandlengjuna, meðal annars Calpe sem er ein af perlum svæðisins. Þessi ljúfi strandbær býður upp á eitthvað fyrir alla sem þangað leggja leið sína, hvort sem menn eru náttúruunnendur, sögunördar, matgæðingar eða einfaldlega ferðamenn í leit að ljúfum dvalarstað. Þar blandast saman skemmtilega nútímalegt strandlíf og gamla spænska bæjar stemmningin sem er svo einstök.

Í Calpe búa um 28.000 manns þannig að bærinn er aðeins minni en Hafnarfjörður. Bæjarstæðið er einstaklega fallegt. Þar skiptast á ljúfar strandir, háir klettastallar og vogskornar víkur.

Calpe city Mediterranean Sea 02

Tákn staðarins er Pena de Ifach kletturinn eða fjallið sem teygir sig út í hafið og gnæfir yfir umhverfinu. Þetta tignarlega fjall verða allir að skoða sem þangað koma, þykir mér allavega. Tindurinn nær um 332 metra hæð og kletturinn er náttúruverndarsvæði og fuglaverndarsvæði. Góðar gönguleiðir eru upp á klettinn frá bænum þaðan sem hægt er að njóta útsýnis yfir hafið og umhverfið.

Gönguleiðirnar sem í boði eru henta öllum, hvort sem er fjölskyldum, eldri borgurum eða alvönum fjalla klifrurum. Hver og einn getur valið þá leið sem hentar honum best.

Penon de Ifach mountain Calpe 03
Útsýnið yfir Calpe frá Pena de Ifach.

En það er margt annað sem bærinn lumar á. Gamla Calpe með fornu kirkjunni er unaðsreitur, maturinn í veitingahúsum bæjarins gleður bragðlaukana og golfvellirnir eru skemmtilegir fyrir þau sem hafa áhuga á golfi. Calpe býður líka upp á margar og ólíkar strandir, allt frá hinni líflegu og fjörugu Playa del Arenal yfir í minni og kyrrlátari strendur eins og Playa de la Fossa.

Sagan hefur mótað mannlífið á þessum fallega stað. Calpe býr yfir ríkri sögu eins og öll strandlengjan, sögu sem teygir sig allt aftur fyrir Rómaveldi. Gamla virkið og varðturninn Torreon segja mikla sögu um átök fyrri tíma. Þarna hefur verið búseta allt frá steinöld. Karþagómenn ríktu yfir ströndinni um tíma, Rómverjar byggðu höfnina og gerðu bæinn að mikilvægri verslunarmiðstöð um aldaraðir. Eftir fall Rómaveldis lögðu arabar undir sig Calpe þangað til konungur Aragons tók yfir svæðið á 13. öld. Calpe varð síðan hluti af Spánarveldi eftir sameiningu Aragons og Spánar um 1500. Íbúar urðu fyrir barðinu á sjóræningjum eins og Íslendingar á 17. öldinni. Þaðan rændu sjóræningjar frá Tyrkjaveldi til dæmis um 315 manns árið 1637, 10 árum eftir Tyrkjaránið átti sér stað á Íslandi. Þannig tengjumst við Íslendingar Calpe yfir aldirnar.

Old town of Calpe 04
Gamli bærinn í Calpe, kirkjan og múrarnir fornu

Öll þessi mikla saga hefur skilið eftir sig ummerki sem gaman er að skoða og kanna, eins og til dæmis rómversku baðhúsarústirnar og fiskimarkaðinn. En áhrifin eru ekki síður að finna í matargerðinni því í Calpe er hægt að finna áhrif frá öllum þessum tímaskeiðum á ótal veitingahúsum og matarstöðum. Auðvitað er fiskurinn í forsæti þarna við hafið enda væri annað undarlegt. Mikil áhersla er lögð á að bjóða upp á bæði skelfisk og annan matarfisk sem matreiddur er að hefðbundnum spænskum hætti en gjarnan með arabísku ívafi. Meðal sérrétta svæðisins er Paella Valenciana og Fideua. Flestir lesendur kannast án efa við Paellu sem er elduð á stórri pönnu úr hrísgrjónum, kjötmeti eða fiskréttum og grænmeti.

Fideua minnir á Paellu en uppistaðan eru núðlur í stað hrísgrjóna.

Fideua in Calpe 05
Fideua.
Ég gæti haldið lengi áfram að segja frá matnum sem veitingahúsin í Calpe bjóða upp á og bæjarlífinu sem heillar. En umfram allt er bærinn vin allra sem vilja líka njóta nálægðar við fallega náttúru, sögu og mannlíf. Enda er bærinn Calpe gjarnan kallaður gimsteinn Hvítu strandarinnar, Costa Blanca.

Þórhallur Heimisson