Helsinki Cathedral 01

Helsinki

Helsinki Cathedral 01
Ég heimsótti Finnland fyrst árið 1983, þegar ég var 22 ára og nemi í norrænum fræðum í lýðháskóla í Danmörku. Ég valdi mér þá sérstaklega Finnland að viðfangsefni. Hluti af náminu fólst í því að fara til Finnlands og kynna sér land og þjóð undir leiðsögn heimamanna sem tóku á móti mér og félögum mínum frá Danmörku með mikilli hlýju. Þetta var yndislegur tími, í hörku frosti um miðjan vetur og síðan hef ég verið ástfanginn af Finnlandi. Enda Finnar á margan hátt líkir Íslendingum, sérstaklega húmorinn sem er þungur og svartur eins og íslenskur sandur. Samt hafa þau aftur og aftur verið kosin hamingjusamasta þjóð í heimi. Þá kom ég líka fyrst til Helsinki, eins og borgin heitir á finnsku, eða Helsingfors eins og hún heitir á sænsku. Finnland er tvítyngt land, þar sem búa um 300.000 sænskumælandi Finnar, flestir við vestur ströndina frá Turku, eða Åbo eins og hún heitir á sænsku, til Helsinki. Finnar eru í dag um 5.7 milljónir.

Nöfnin tvö, Helsinki og Helsingfors, Turku og Åbo, segja okkur margt um sögu Finnlands og Helsinki, eins og borgin er iðulega nefnd á Íslandi. Helsinki er höfuðborg Finnlands. Borgin var stofnuð árið 1550 við mynni Helsingjaár, en nafn árinnar býr í nafni borgarinnar, Helsinki. Það var Gustav Vasa konungur Svíþjóðar sem lagði grunninn að Helsinki, sem þá var sænsk borg, enda Finnland og Svíþjóð eitt og sama landið á þessum horfnu öldum. Borgin hefur auðvitað tekið stakkaskiptum síðan þá. Finnland, sem var austur hluti sænska ríkisins, var hertekið af Rússum og gert að stórhertogadæmi innan rússneska keisaradæmisins árið 1809. Landið hélt ákveðinni sjálfsstjórn sem hluti Rússlands. Finnland varð sjálfstætt ríki árið 1917 og Helsinki höfuðborg þess. Finnar hafa löngum þurft að verjast ágangi granna síns í austri og borgin skemmdist í Síðari heimsstyrjöldinni vegna loftárása Sovétmanna en hefur löngu náð fyrri fegurð.

Í dag er Helsinki þróttmikil og vaxandi borg þar sem tækni, hönnun og umhverfi fá að njóta sín. Þar búa nú um 800.000 manns. Borgin er lifandi menningarmiðstöð og býr yfir mörgum heimsfrægum kennileitum eins og lútersku dómkirkjunni, Uspenski dómkirkjunni sem er rétttrúnaðarkirkja, gamla markaðnum, hótel Torni sem var áður fangelsi leyniþjónustu Rússa, Klettakirkjunni, Ólympíuleikvanginum og minnismerki Síbelíusar svo fátt eitt sé nefnt.

Borgin stendur við Finnska flóa og liggur vel við ferjuleiðum um alla Evrópu. Flugvöllurinn er líka miðpunktur í Asíuflugi. Borgin nýtur þannig góðs af straumum víða að. Sjálfir eru Finnar öðrum fyrirmynd í skólamálum, félagsmálum og hönnun. Helsinki er þekkt hönnunarborg. Þar er heimili Marimekko ogMúmínálfarnir setja að sjálfsögðu svip á bæinn. Helsinki er líka mikil matarborg þar sem finna má skemmtileg veitingahús af öllu tagi þar sem bæði er lögð áhersla á góðan mat, hönnun að sjálfsögðu sem og skemmtilegt og hlýlegt viðmót.

Suomenlinna sea fortress in Helsinki 04

Helsinki er umvafinn ótrúlegri náttúrufegurð, skógi, hafi og skerjagarði, fegurðin er einstök hvort sem er sumar þegar sólin skín eða á veturna þegar ísinn leggst að. Í skerjagarðinum er að finna virkið Suomenlinna eða Sveaborg sem var byggt 1748 gegn Rússum en er i dag á heimsminjaskrá Unesco. Þangað er hægt að sigla frá höfninni í Helsinki og eiga þar skemmtilegan dag.

Hver sem heimsækir Helsinki fer frá borginni með hlýjar minningar. Umfram allt er manni alltaf vel tekið af heimamönnum, sem hafa orð á sér fyrir að vera þungir í lund, en undir yfirborðinu slær hjarta úr gulli.

Þórhallur Heimisson