Hvert sem ferðamaður fer í Berlín blasir sagan við. Þar blandast sagan einhvern vegin á sjálfsagðan hátt við púls mannlífsins. Klassískar byggingar og listaverk speglast í nýlistinni og ljúfum nútímalegum þokka. Fáar borgir Evrópu hafa á undanförnum árum verið sóttar heim af eins mörgum ferðalöngum og einmitt Berlín. Enda er Berlín glæsileg höfuðborg hins sameinaða Þýskalands og horfir björtum augum fram á veginn samtímis því sem hún er óumdeilanlega einna fremst meðal jafningja í Evrópu.

Berlín lifir á margan hátt á sögu sinni, þó sagan hafi vissulega oft verið erfið. Borgin var aðalleikvangur tveggja einræðisstjórna á síðustu öld, nasismans og kommúnismans, sem skildu eftir sig sviðna jörð og meiri hrylling en áður hefur þekkst í sögu mannkyns. Sagan teygir sig auk þess langt aftur í aldir, til tíma Prússaveldis og langt aftur fyrir það. Þessi saga sem blasir við á hverju götuhorni er segullinn sem laðar marga gesti að borginni. Engin önnur borg getur boðið ferðalangi upp á stutta gönguferð sem á örfáum mínútum tengir saman Bebelplatzs, þar sem bókabrennur nasista fóru fram 10. maí 1933, og heimsókn í DDR safnið þar sem sögu Austur Þýskalands og kommúnistastjórnarinnar eru gerð skil. Þar er líka að finna svo fátt eitt sé talið hið áhrifamikla Denkmal fur die ermorderten Juden Europas, eða minnismerkið um helförina. En einnig Branderburgar hliðið sem er tákn borgarinnar, byggt í skínandi nýklassískum stíl, endurbyggða dómkirkjuna sem var eyðilögð í lok seinna stríðs og minnismerkið um Berlínarmúrinn sem geymir hluta af múrnum er skildi að austur og vestur Berlín á tímum kalda stríðsins. 

Enginn vill heldur missa af að sækja heim Check Point Charlie sem á þeim tíma var eina landamæra stöðin milli austurs og vesturs. Þar geta gestir í huganum tekið undir með eldræðu John F. Kennedy er hann hélt árið 1963 í borginni: „Ich bin ein Berliner“ eða „ég er Berlínarbúi“ . Svo má ekki gleyma að sækja heim Þinghúsið, keisarahöllina sem einnig hefur verið endurreist og söfnin stórkostlegu á Museumsinsel. Safnaeyjan geymir fimm af mikilvægustu og frægustu söfnum Berlínar. Meðal annars Pergamon safnið þar sem sagt er finna megi hlið heljar ef trúa má sögusögnum.

Já, sagan blasir svo sannarlega við hvert sem ferðalangur snýr sér í Berlín.

Ákaflega þægilegt er að ferðast um borgina gangandi eða með almenningssamgöngum og sækja heim alla þessa staði. Sjálfur elska ég að hjóla um Berlín. Hún er mín uppáhalds hjólaborg þar sem hjólastígarnir mynda þéttriðið net um alla borgina og hægt er að þeysa milli hinna margbrotnu og ólíku borgarhluta hennar á örskotsstundu. Sérstaklega „Mitte“ eða miðjuna, þar sem er að finna hjarta Berlínar með ráðhúsinu, sjónvarpsturninum, Alexanderplatz, safnaeyjunni fyrrnefndu og hinni einstaklega fallegu og rómantísku breiðgötu „Unter den Linden“ sem rekur rætur sínar aftur á 17. öld.

Berlín er heimaborg tæplega fjögurra milljóna íbúa. Ef það er sagan og menningin sem dregur túrista til Berlínar, þá eru það allt önnur málefni sem brenna á heimamönnum í sínu daglega lífi. Fyrir nokkru gaf rithöfundurinn Jens Biskey út bókina: „Berlin-Biografie einer grossen stad“ eða Berlín – ævisaga stórborgar. Í bókinni reynir hann eins og svo margir aðrir að átta sig á því hvað það er sem veldur þessum mikla áhuga á Berlín í samtíma okkar. „Hingað eru allir velkomnir“ skrifar hann. „Margir flytja til Berlínar til að láta drauma sína rætast og losna undan böndum sem binda þá við fortíðina. Þannig er Berlín borg framtíðarinnar og draumanna. Maður þarf að eins að hafa búið í Berlín í ein þrjú ár til að geta talist „Berliner“. Í öðrum borgum Þýskalands segir hann, er maður alltaf innfluttur, þó maður hafi búið þar stærsta hluta ævinnar. Ætli það eigi ekki við víða?

Já, Berlín bíður ferðalang velkominn með karrí pylsum, þægilegu veðri, góðum bjór og bjórgörðum, spennandi næturlífi, glitrandi verslunar hverfum og skógi vöxnum útisvæðum. Borgin hefur eitthvað fyrir alla sem þangað koma og breytir þeim á svipstundu í “ein Berliner”

Þórhallur Heimisson