Edinborg, heillandi höfuðborg Skotlands, býður gestum fullkomna blöndu af sögu, menningu og náttúrufegurð. Hún er þess vegna hrífandi áfangastaður fyrir þá sem dreymir um ógleymanlega ferð. Í þessu bloggi kynnumst við betur sígildum töfrum Edinborgar og búum til lista yfir það sem má að taka sér fyrir hendur í borginni, sniðinn að áhugamálum og þörfum fólks sem komið er á efri ár.
Saga og glæsileiki einkenna Edinborg þar sem hún breiðir úr sér um ávalar hæðir undir Sæti Artúrs, hömróttum leifum af æfafornu eldfjalli.

Edinborg: Saga í glæsilegri umgjörð

Borgin er skoskur kjörgripur með Gamla bænum (Old Town) frá miðöldum, mikilfenglegum Nýja bænum (New Town) og öflugu menningarlífi. Heimsókn til Edinborgar gefur fyrirheit um tækifæri til að slaka á, kanna nýjar slóðir og auðga andann. Hún er framúrskarandi áfangastaður fyrir fólk á efri árum, öll aðstaða og þægindi í borginni falla vel að þörfum eldri borgara og heimamenn taka vel á móti gestum.

Það er af nógu að taka í Edinborg:

1. Röltu um gamla bæinn

Byrjaðu ævintýrið í Edinborg með því að kynnast heillandi andrúmslofti á strætum Gamla bæjarins. Njóttu byggingarlistar frá fyrri öldum og röltu eftir Konunglegu mílunni (Royal Mile), aðalstrætinu í Gamla bænum; líttu í leiðinni inn á nær falin afgirt svæði og húsagarða sem geyma menjar um litríka fortíð borgarinnar.

2. Hrífandi útsýni frá Edinborgarkastala

Edinborgarkastali, sem trónir uppi á Kastalakletti (Castle Rock), er frægasta kennileiti Edinborgar og staður sem enginn má sleppa að heimasækja. Þar má sökkva sér niður í sögu Skotlands, sjá Krúnudjásnin og njóta hrífandi útsýnis yfir borgina. Að kastalanum er gott aðgengi og víða hægt að tylla sér niður.

3. Skoðaðu Holyroodhouse höllina

Heimsóttu hina glæsilegu Holyroodhouse höll við endann á Konunglegu mílunni, opinbert aðsetur breska konungsins í Skotlandi. Skoðaðu húsakynni í margra herbergja íbúð konungsfjölskyldunnar og njóttu þess að ganga um fagra hallargarða.

4. Fáðu þér sæti rétt hjá verslunargötunni

Garðarnir við Princes Street (Princes Street Gardens) í hjarta borgarinnar eru friðsæll staður með frábæru útsýni til Edinborgarkastala. Tylltu þér á bekk og njóttu hvíldar frá ys og þys og iðandi mannlífi á næstu strætum. Verslunargatan Princess Street skilur að Gamla og Nýja bæinn.

5. Taktu þér þinn tíma

Edinborg er víðkunn fyrir menningarhátíðir og fjölbreytt listalíf. Kynntu þér hvað er á dagskrá á viðburðum eins og Edinburgh Festival Fringe eða njóttu þess að bregða þér í leikhús. Víða er í boði afsláttur fyrir eldri borgara og gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða.
Edinborg, gædd töfrum liðinna alda, menningarverðmætum og áhugaverðum stöðum með hentugu aðgengi fyrir eldri borgara, er staður þar sem ferðamenn njóta tilbreytingar í Skotlandi, geta slakað á og kynnst ríkulegri menningu. Hvort sem þú ert á göngu um æfaforn strætin í Gamla bænum, skoðar þig um í mikilúðlegum köstulum eða gæðir þér á hefðbundnum skoskum réttum, máttu treysta því að Edinborg er staður þar sem bíður þín fjölbreytileg upplifun, sniðin að áhugamálum þínum og þörfum. Og þess vegna: Settu niður í ferðatöskuna, láttu hrífast af sígildum glæsileika Edinborgar og leggðu upp í minnisstæða ferð um hjarta Skotlands.