
Ef þú ert að skipuleggja væntanlega ferð til Costa Blanca á Spáni þarftu að bæta Calpe við listann, smábæ við ströndina, 67 km frá Alicante, við jaðar Penyal d'Ifac landverndarsvæðisins.
Þegar við komumst á efri ár heldur áfram að freista okkar að fara í ferðalag, upplifa eitthvað nýtt, auðga andann og eignast dýrmætar minningar. Calpe, heillandi smábær við hafið á Costa Blanca á Spáni, er kjörinn áfangastaður fyrir eldra fólk sem leitar að slökun, ævintýrum og hreyfingu sem tekur mið af aldri og getu. Í þessu bloggi könnum við töfrandi heim í Calpe og búum til lista yfir það sem hægt er að taka sér fyrir hendur á þessum slóðum, sniðinn að áhugamálum og þörfum hvers og eins.
Calpe: Sannur demantur á Costa Blanca svæðinu
Í Calpe, mitt á milli Alicante og Valencia, er notalegt Miðjarðarhafs-loftslag, fallegar strendur og menjar um ríkulega sögu sem nær allt aftur til tíma Rómaverja. Tákn og kennileiti staðarins er Penyal d’Ifac (Ifac-klettur), 332 metra hár kalksteinsklettur sem gnæfir á verði yfir strönd-inni og setur sterkan svip á umhverfið. Vingjarnlegir heimamenn og friðsælt andrúmsloft gera Calpe að fullkominni umgjörð fyrir eldri borgara sem leita eftir hressandi og gefandi tilbreytingu.
Hvað er hægt að gera?
1. Njóttu dagsins á ströndinni
Eitt af því sem er skemmtilegast að gera í Calpe er að rölta í hægðum sínum meðfram Arenal-Bol-ströndinni. Mjúk sandfjaran er tilvalinn staður til að slaka á, liggja í sólbaði og hlusta á öldugjálfrið.
Gönguleiðin meðfram ströndinni er hellulögð og auðveld yfirferðar, jafnvel fyrir þá sem eru hreyfihamlaðir. Þá er hægt að setjast víða undir sólskyggni og njóta útsýnisins.2. Gönguferð um gamla bæinn
Gamli bærinn í Calpe er heillandi völundarhús með þröngum strætum, litríkum húsum og skemmtilegum torgum. Röltu þarna um og gerðu hlé á göngunni með því að líta inn í kaffihús eða einhverja smáverslun.
Ekki sleppa því að skoða Iglesia Antigua (Gömlu kirkjuna) og staldra við á aðaltorginu, Plaza Mayor, þar sem þú getur fengið þér kaffibolla og horft á mannlífið.
3. Uppgötvaðu Penyal d’Ifac landverndarsvæðið
Þeir sem eru til í svolítið ævintýri ættu ekki að sleppa því að heimsækja Penyal d’Ifac landverndarsvæðið. Það getur reynst mörgum fullerfitt að komast alveg upp á topp á Ifac-klettinum en á svæðinu eru stígar, sem er vel við haldið, og gestir geta því skoðað sig um á sínum hraða.
Stórkostlegt útsýni til Miðjarðarhafs og sjálft umhverfið eru allrar fyrirhafnar virði. Ef þú ert ekki fyrir langar gönguferðir geturðu notið þess að skoða einstakt gróðurríki og dýralíf á svæðinu þar sem má finna meira en 300 tegundir af plöntum og fjölmargar fuglategundir.
4. Njóttu matarins
Spænsk matargerð er þekkt fyrir ljúffengt bragðið af réttunum og í Calpe er að finna fjölbreytilegt úrval af matsölustöðum þar sem hver og einn ætti að finna eitthvað við sitt hæfi og smekk.
Prófaðu rétti úr sjávarfangi staðarins á veitingastað við ströndina, t.d. paella og ferskan fisk beint af grillinu. Í mörgum matsölustöðum í Calpe er tekið sérstakt tillit til eldra fólks með góðu aðgengi og starfsfólkið er einkar greiðvikið.