

Við höfðum ekki pantað gistingu en reikuðum um Latínuhverfið þangað til við rákumst á ódýrt gistiheimili nálægt Shakespeare and Company, bókabúðinni fornu sem síðar átti eftir að verða heimsfræg. Þá gat maður ranglað þangað inn og látið sig hverfa í völundarhúsi herbergja, bóka og blaðastafla búðarinnar. Nú er biðröð fyrir framan búðina og gestum hleypt inn í litlum hópum.

Ég man þegar ég gekk út á göngugöturnar þarna í Latínuhverfinu í fyrsta sinn: Fljótið Signa sem liðaðist hjá; öll litlu veitingahúsin í göngugötunum; súkkulaðibrauðið sem ég keypti mér í morgunverð og kaffið, sem var það besta sem ég hafði smakkað; rök og gamaldags neðanjarðarlestin; hláturinn á útiveitingahúsunum og öll samtölin sem maður heyrði eins og lækjarnið á meðan skálað var í rauðvíni og freyðivíni yfir ostabakka; þröngar göngugöturnar sem liðuðust eins og ormar um borgina og runnu saman við breiðgöturnar; kastaníutrén; hallirnar; söfnin; Effelturninn.
Að ekki sé minnst á mannlífið á götunum þar sem öllu ægði saman.
Þó árin hafi liðið er tilfinningin alltaf sú sama þegar ég kem til Parísar. Þessi upplifun af frelsi, lífsgleði og fegurð lífsins í öllum sínum myndum sem einkennir borgarlífið. Auðvitað hefur borgin breyst. Alveg eins og ég varð hluti af hjartslætti og sögu borgarinnar þarna í fyrsta sinn hafa allir þeir sem þangað koma markað hana með sinni sögu. Eða ef til vill er ekki til nein ein saga sem hægt er að segja um París. Alveg eins og París er ekki ein borg. Hún er margar borgir með hver sína sögu, margar borgir inni í borginni.
Saga Evrópu og saga Parísar verða ekki aðskilin. Það var Júlíus Sesar hinn rómverski hershöfðingi sem stofnaði borginaLutetia Pariseriorum árið 53 fyrir Krist. Nafnið fékk hún af keltneska þjóðflokknum sem bjó á eyjunni úti í Signu þegar Júlíus kom þangað. Þeir kölluðust Parisier.
Eftir að Rómaveldi féll var það Klodvik konungur og drottning hans Clotilda sem gerðu París að höfuðborg Frankanna árið 508. Frankaríkið varð síðan að Frakklandi eftir því sem aldir liðu. Þannig að frá fyrstu tíð hefur París verið miðja Frakklands.
Forfeður okkar víkingarnir herjuðu síðar á borgina sem varð stærsta borg Evrópu á hinum myrku miðöldum. Höfuðkirkju borgarinnar, Notre-Dame, var byrjað að byggja árið 1163 og háskólinn, Sorbonne var stofnaður 1257. Kringum hann reis síðan Latínuhverfið þar sem stúdentar frá öllum hornum Evrópu söfnuðust saman. Þangað sigldi til dæmis Sæmundur fróði okkar frá Íslandi til að stúdera í Svarta skóla. Nú hafa veitingahúsin tekið yfir þar sem stúdentarnir áður réðu ríkjum.

Það var á götum Parísar sem franska byltingin hófst árið 1789 sem leiddi til aftöku síðasta konungs Frakka Lúðvíks XVI og konu hans Marie-Antonette og síðar krýningar Napóleons keisara og Napóleonsstyrjaldanna sem enduðu með ósigri Napóleons viðWaterloo árið 1815. Í dag er hægt að heimsækja gröf Napóleons i Les Invalides sem einnig er safn franska hersins. Napólen er frægur fyrir margt, ekki aðeins herfarir sínar. Það var til dæmis hann sem fann upp á númerakerfi húsa sem enn er við líði um víða veröld. Það var síðan Napóleon III sem hannaði hverfaskipulag Parísar, Paris arrondissement, sem skipar borginni í 20 hverfi kringum Il de la Cite, eyjuna gömlu. En eins og fyrr segir er hvert hvefi eins og borg í borginni. Enda voru mörg þessara hverfa upphaflega sjálfstæðir bæir sem seinna urðu úthverfi borgarinnar. París varð síðan höfuðborg franska heimsveldisins á 19. öld og áhrif nýlendnanna má sjá alls staðar í mannlífinu, í matargerð, tónlist, myndlistinni, bókmenntunum og menningu borgarbúa.

Já saga Parísar er rík og spennandi: Átökin við Þýskaland á 19. og 20. öldinni, Impressionisminn, endurteknar byltingar og slagorðin „Frelsi, jafnrétti og bræðralag“, Effelturninn, Louvre safnið og dauði Díönu prinsessu, allt er þetta og svo miklu, miklu meira hluti af París. Um leið hefur París og saga Parísar haft svo mikil áhrif á okkur öll. Borgin hefur líka þurft að þola erfiða atburði. Eins og hryðjuverkaárásina árið 2015 þegar ráðist var á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo og 12 manns létust. Í nóvember sama ár dóu 130 manns í hryðjuverkaárásum. Þá eins og svo oft áður á erfiðum tímum hafa borgarbúar snúið bökum saman.

Umfram allt er París borg ástarinnar. Ástfangin pör heimsækja brúnna Pont des Arts til að hengja hengilás með nöfnum sínum á brúarhandrið. Sem tákn um óendanleika ástarinnar. Upphaflega brúin var reist af Napóleon keisara og var fyrsta járn brú yfir Signu. Brúin skemmdist vegna sprengjuárása bæði í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni, hrundi og var síðan endurbyggð. Nú glitra þúsundir hengilása á brúnni í sólskininu. Það er að segja, þangað til borgarstarfsmenn koma og klippa þá burt svo pláss sé fyrir nýja. „Það er bara til ein sönn hamingja í lífinu: að elska og að vera elskaður“ skrifaði Lucile Dupin á sínum tíma. Parísarbúar eru örugglega sammála.

Við upphaf 21. aldarinnar er París enn ein af mikilvægustu borgum heimsins. Þar búa nú um 2000.000 í miðborg Parísar en 13.000.000 ef stór-París er talin með. Þar er að finna höfuðstöðvar margra af helstu alþjóðastofnunum samtímans, meðal annarra OECD og UNESCO. Hvergi í heiminum er boðið upp á fleiri alþjóðaráðstefnur en í París og París er miðstöð bæði flugsamgangna og lestarkerfis Evrópu. Enda var EM í fótbolta haldið þar árið 2016 og Ólympíuleikarnir árið 2024.

Eins og ég sagði hér í upphafi verður ferðalangur sem til borgarinnar kemur samstundis hluti af þessum mikla hjartslætti sem París er. Borgin býður sífellt upp á eitthvað nýtt. Best verður París þó að kvöldi til, þegar þreyttur ferðalangur tyllir sér niður á einhverjum af hinum óteljandi veitingahúsum hennar, í Latínuhverfinu, við les Halles, uppi á hæðinni þar sem Montmartre kirkjan gnæfir yfir borginni, hjá Rauðu myllunni eða nálægt Signubökkum, og gleymir sjálfum sér í hjartslætti mannlífsins.
Þórhallur Heimisson