París

Um leið og þú stígur fæti í París ertu orðinn hluti af borginni. Það upplifði ég í fyrsta sinn þegar ég kom þangað 22 ára gamall. Ég var þá á ferð um Evrópu í bílaleigubíl ásamt vinum mínum. Bílinn höfðum við tekið að leigu í Lúxemborg eins og margir gerðu á þessum árum. Þaðan blússuðum við til Parísar. Við komum í borgina seint um kvöld, skildum bílinn eftir í bílageymslu fyrir utan miðborgina og brunuðum með neðanjarðarlestinni inn að Ile de la Cite, eyjunni í miðri Signu, sem hefur verið hjarta Parísar frá upphafi.

Við höfðum ekki pantað gistingu en reikuðum um Latínuhverfið þangað til við rákumst á ódýrt gistiheimili nálægt Shakespeare and Company, bókabúðinni fornu sem síðar átti eftir að verða heimsfræg. Þá gat maður ranglað þangað inn og látið sig hverfa í völundarhúsi herbergja, bóka og blaðastafla búðarinnar. Nú er biðröð fyrir framan búðina og gestum hleypt inn í litlum hópum.

Ég man þegar ég gekk út á göngugöturnar þarna í Latínuhverfinu í fyrsta sinn: Fljótið Signa sem liðaðist hjá; öll litlu veitingahúsin í göngugötunum; súkkulaðibrauðið sem ég keypti mér í morgunverð og kaffið, sem var það besta sem ég hafði smakkað; rök og gamaldags neðanjarðarlestin; hláturinn á útiveitingahúsunum og öll samtölin sem maður heyrði eins og lækjarnið á meðan skálað var í rauðvíni og freyðivíni yfir ostabakka; þröngar göngugöturnar sem liðuðust eins og ormar um borgina og runnu saman við breiðgöturnar; kastaníutrén; hallirnar; söfnin; Effelturninn

Að ekki sé minnst á mannlífið á götunum þar sem öllu ægði saman. 

Þó árin hafi liðið er tilfinningin alltaf sú sama þegar ég kem til Parísar. Þessi upplifun af frelsi, lífsgleði og fegurð lífsins í öllum sínum myndum sem einkennir borgarlífið. Auðvitað hefur borgin breyst. Alveg eins og ég varð hluti af hjartslætti og sögu borgarinnar þarna í fyrsta sinn hafa allir þeir sem þangað koma markað hana með sinni sögu. Eða ef til vill er ekki til nein ein saga sem hægt er að segja um París. Alveg eins og París er ekki ein borg. Hún er margar borgir með hver sína sögu, margar borgir inni í borginni.

Saga Evrópu og saga Parísar verða ekki aðskilin. Það var Júlíus Sesar hinn rómverski hershöfðingi sem stofnaði borginaLutetia Pariseriorum árið 53 fyrir Krist. Nafnið fékk hún af keltneska þjóðflokknum sem bjó á eyjunni úti í Signu þegar Júlíus kom þangað. Þeir kölluðust Parisier. 

Eftir að Rómaveldi féll var það Klodvik konungur og drottning hans Clotilda sem gerðu París að höfuðborg Frankanna árið 508. Frankaríkið varð síðan að Frakklandi eftir því sem aldir liðu. Þannig að frá fyrstu tíð hefur París verið miðja Frakklands. 
Forfeður okkar víkingarnir herjuðu síðar á borgina sem varð stærsta borg Evrópu á hinum myrku miðöldum. Höfuðkirkju borgarinnar, Notre-Dame, var byrjað að byggja árið 1163 og háskólinn, Sorbonne var stofnaður 1257. Kringum hann reis síðan Latínuhverfið þar sem stúdentar frá öllum hornum Evrópu söfnuðust saman. Þangað sigldi til dæmis Sæmundur fróði okkar frá Íslandi til að stúdera í Svarta skóla. Nú hafa veitingahúsin tekið yfir þar sem stúdentarnir áður réðu ríkjum.

Það var á götum Parísar sem franska byltingin hófst árið 1789 sem leiddi til aftöku síðasta konungs Frakka Lúðvíks XVI og konu hans Marie-Antonette og síðar krýningar Napóleons keisara og Napóleonsstyrjaldanna sem enduðu með ósigri Napóleons viðWaterloo árið 1815. Í dag er hægt að heimsækja gröf Napóleons i Les Invalides sem einnig er safn franska hersins. Napólen er frægur fyrir margt, ekki aðeins herfarir sínar. Það var til dæmis hann sem fann upp á númerakerfi húsa sem enn er við líði um víða veröld. Það var síðan Napóleon III sem hannaði hverfaskipulag Parísar, Paris arrondissement, sem skipar borginni í 20 hverfi kringum Il de la Cite, eyjuna gömlu. En eins og fyrr segir er hvert hvefi eins og borg í borginni. Enda voru mörg þessara hverfa upphaflega sjálfstæðir bæir sem seinna urðu úthverfi borgarinnar. París varð síðan höfuðborg franska heimsveldisins á 19. öld og áhrif nýlendnanna má sjá alls staðar í mannlífinu, í matargerð, tónlist, myndlistinni, bókmenntunum og menningu borgarbúa.

Já saga Parísar er rík og spennandi: Átökin við Þýskaland á 19. og 20. öldinni, Impressionisminn, endurteknar byltingar og slagorðin „Frelsi, jafnrétti og bræðralag“, Effelturninn, Louvre safnið og dauði Díönu prinsessu, allt er þetta og svo miklu, miklu meira hluti af París. Um leið hefur París og saga Parísar haft svo mikil áhrif á okkur öll. Borgin hefur líka þurft að þola erfiða atburði. Eins og hryðjuverkaárásina árið 2015 þegar ráðist var á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo og 12 manns létust. Í nóvember sama ár dóu 130 manns í hryðjuverkaárásum. Þá eins og svo oft áður á erfiðum tímum hafa borgarbúar snúið bökum saman. 

Umfram allt er París borg ástarinnar. Ástfangin pör heimsækja brúnna Pont des Arts til að hengja hengilás með nöfnum sínum  á brúarhandrið. Sem tákn um óendanleika ástarinnar. Upphaflega brúin var reist af Napóleon keisara og var fyrsta járn brú yfir Signu. Brúin skemmdist vegna sprengjuárása bæði í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni, hrundi og var síðan endurbyggð. Nú glitra þúsundir hengilása á brúnni í sólskininu. Það er að segja, þangað til borgarstarfsmenn koma og klippa þá burt svo pláss sé fyrir nýja. „Það er bara til ein sönn hamingja í lífinu: að elska og að vera elskaður“ skrifaði Lucile Dupin á sínum tíma. Parísarbúar eru örugglega sammála.

Við upphaf 21. aldarinnar er París enn ein af mikilvægustu borgum heimsins. Þar búa nú um 2000.000 í miðborg Parísar en 13.000.000 ef stór-París er talin með. Þar er að finna höfuðstöðvar margra af helstu alþjóðastofnunum samtímans, meðal annarra OECD og UNESCO. Hvergi í heiminum er boðið upp á fleiri alþjóðaráðstefnur en í París og París er miðstöð bæði flugsamgangna og lestarkerfis Evrópu. Enda var EM í fótbolta haldið þar árið 2016 og Ólympíuleikarnir árið 2024. 

Eins og ég sagði hér í upphafi verður ferðalangur sem til borgarinnar kemur samstundis hluti af þessum mikla hjartslætti sem París er. Borgin býður sífellt upp á eitthvað nýtt. Best verður París þó að kvöldi til, þegar þreyttur ferðalangur tyllir sér niður á einhverjum af hinum óteljandi veitingahúsum hennar, í Latínuhverfinu, við les Halles, uppi á hæðinni þar sem Montmartre kirkjan gnæfir yfir borginni, hjá Rauðu myllunni eða nálægt Signubökkum, og gleymir sjálfum sér í hjartslætti mannlífsins.

Þórhallur Heimisson

Stokkhólmur – Feneyjar norðursins

Það er ekki undarlegt að Stokkhólmur, höfuðborg Svíþjóðar, hafi um aldaldaraðir gengið undir nafninu „Feneyjar norðursins“. Borgin Feneyjar á Ítalíu er eins og allir vita umlukin hafinu, eiginlega byggð úti á hafi á tréstaurum og þar er helsta samgönguleiðin síki í stað gatna og gondólar koma í stað bíla. Það sama einkennir Stokkhólm að mörgu leiti.
Stokkhólmur var upphaflega lítill bær sem á víkingaöld var reistur á hólma í skerjagarðinum þar sem hið salta Eystrasalt mætir ferskvatninu frá Mälaren, þriðja stærsta innhafi Svíþjóðar. Stokkhólmur þýður eiginlega „Timbur hólmurinn“ eða hólmurinn þar sem timbur og tré móta umhverfið.

Það var á þessum hólma sem gamli bærinn varð til, „Gamla stan“ eins og hann heitir á sænsku, sem enn stendur og er einkenni borgarinnar. Á hólmanum var auðvelt að verjast árásum óvina á hinum myrku Miðöldum. Frá hólmanum til austurs teygir skerjagarðurinn sig langt út á Eystrasaltið og þar sem siglingaleiðin er hvað þrengst reistu Svíar sér virki til að stjórna skipaumferðinni. Til vesturs liggur siglingaleiðin inn Mälaren og alla leið til Uppsala þar sem miðaldakirkjan reisti höfuðstöðvar sínar. Þar er enn að finna stærstu kirkju á Norðurlöndum, Uppsaladómkirkju. Um 1500 var borgin við sundin fyrst kölluð „Feneyjar norðursins“ í rituðum heimildum. Það voru Hansakaupmennirnir þýsku sem lýstu staðnum þannig og skrifuðu að hólmurinn væri … „virki og verslunarmiðstöð Svíanna, varinn frá náttúrunnar hendi og af mikilli byggingarlist. Borgin á hólmnum liggur við vatnið eins og Feneyjar“. Já, það var snemma margt líkt með Stokkhólmi og Feneyjar.

Eftir því sem tímar liðu þéttist byggðinn á hólmanum og kringum hólmann. Karl XII konungur reisti þar konungshöllina sem enn stendur um 1700. Það var á þeim tíma þegar Svíþjóð var stórveldi og réði yfir öllum löndum kringum Eystrasaltið og langt suður í Þýskaland. Enda höllin engin smásmíð.  Á hólmanum er líka að finna dómkirkjuna, „Storkyrkan“, og þinghúsið var reist á nærliggjandi hólma, „Helgeandsholmen“. Þannig að enn í dag er Gamla stan hjarta Svíþjóðar. Nú er öll umferð bifreiða bönnuð um Gamla stan þar sem yndislegar, þröngar göngugötur mynda net milli fornra torga og litlar búðir og hverskonar veitingahús blandast saman í dásamlegu völundarhúsi. Sem er umkringt hafinu. Þarna er að finna Nóbelshöllina, torgið þar sem frægasti jólamarkaður Stokkhólms er haldinn ár hvert, þýsku kirkjuna, lífverði konungs á vappinu og margt, margt fleira. Það er meira að segja hægt að rekast á núverandi konung Svíþjóðar þarna á göngunni, Karl XVI Gústaf, en hann er mikill útivistarmaður og elskar að fara í gönguferð um hólmann. Eða að bregða sér á skauta á sundunum þegar ísa leggur á köldum vetrum.

Aðal göngugatan í Gamla stan, Västerlånggatan, liggur yfir brýrnar sem tengja þinghúsið við konungshöllina og beint yfir á Drottningargötuna, sem er stærsta göngu og verslunargata borgarinnar. Þar iðar allt af lífi frá morgni til kvölds og langt fram á nætur. Já Gamla stan er hjartað og kringum hjartað byggðist borgin. Í dag búa um 800.000 manns í Stokkhólmi allt í kringum hólmann þar sem borgin fæddist. Fjöldinn teygir sig upp í 2.800.000 þegar stór-Stokkhólmur er tekinn með og verður þannig stærsti byggðarkjarni á Norðurlöndum. Byggðin stendur nú á gömlum melum og hólmum kringum Gamla stan og teygir sig yfir í skerjagarðinn þar sem hvert hverfi hefur sitt einkenni og er eins og borg í borginni.

Þar er að finna … Södermalm sem er heimur út af fyrir sig með öllum sínum frábæru leikhúsum og veitingastöðum. Östermalm með háskólunum, útvarps og sjónvarpshverfinu, útivistarsvæðunum og höfninni þaðan sem ferjurnar sigla til Finnlands og Álandseyja og Eystrasaltsríkanna og Póllands. Norrmalm sem er miðborg Stokkhólms nútímans með öllum sínum verslunum, veitingahúsum og mannlífi. Þar nærri er Karólínska sjúkrahúsið þar sem margir Íslendingar hafa fengið þjónustu og þekkja vel.

Kungsholmen þar sem ráðhúsið stendur, eitt af kennileitum borgarinnar….,,,,,og síðast en ekki síst Djurgården þar sem er að finna eitt stærsta útivistarsvæði í höfuðborg í heiminum. Þar liggur Skansen, húsdýragarðurinn sem er eins og Svíþjóð í vasaútgáfu, Gröna Lund, Tívolí Stokkhólmsbúa, Abba safnið sem óþarft er að kynna, Vasasafnið með herskipinu Vasa er sökk á sundunum við Stokkhólm árið 1628 í jómfrúar siglingu, Norræna safnið, Víkingasafnið, Brennivínssafnið og ótal mörg önnur söfn. Inn á milli eru göngustígar og veitingahús, barir og búðir á hverju horni. Allt um kring og nærri er skógurinn og hafið, Mälaren og Eystrasalt, sætt og salt eins og Stokkhólsbúar segja.

Besta leiðin og skemmtilegasta til að ferðast milli allra hólma og mela og skerja Stokkhólms er að taka það sem ég kalla bátastrætóinn. Bátastrætó siglir fram og aftur um borgina, lengst út í skerjafjörðinn og út á eyjarnar fyrir utan þar sem Eystrasaltið smátt og smátt tekur yfirhöndina. Til dæmis er hægt að skjótast í bátastrætó frá Djurgården yfir í Gamla stan. Eða í miðbæinn. Það er ævintýr að sigla þarna um sumar, vetur, vor og haust og kostar ekki meira en einn miði í strætó. Svo er auðvitað hægt að taka sér ferð með túristabát, eða fara í rækjuveislu á siglandi veitingastað. Hafið býður upp á óteljandi möguleika.

Þegar allt hefur verið sagt um borgina er þó aðalatriðið eftir sem erfitt er að koma í orð. Það er fegurð borgarinnar. Sumir segja að Stokkhólmur sé fallegastur að vori, þegar kirsuberjatrén blómstra í lok apríl í konunglega trjágarðinum í miðborginni. Aðrir að það sé ekkert miðað við á sumrin þegar hægt er að tylla sér við vatnið, Mälaren eða Eystrasaltið og veiða eða sitja úti á útiveitingahúsi á fallegu kvöldi með ljúfar veigar og horfa á mannlífið blómstra. Fegurð borgarinnar að hausti er öðrum efst í huga, þegar blöðin falla af trjánum og litskrúð skógarins er eins og listaverk. Sjálfum þykir mér borgin fallegust að vetri þegar snjórinn þekur allt, hafið frís og kuldinn sígur niður í mínus tuttugu gráður. Þá kvikna kertasljósin í búðunum og veitingahúsunum, ilmurinn af jólaglöggi og piparkökum breiðist yfir borgina, skógurinn klæðir sig í vetrarskrúð og hægt er að skella sér á skauta og skíði í miðborginni með kónginum og öllum hinum Svíunum.

Þórhallur Heimisson

Madeira

Madeira, stundum nefnd „Havaí Evrópu“, hefur orðið æ vinsælli meðal íslenskra ferðalanga sem leita að nýrri paradís. Eyjan, sem er staðsett í miðju Atlantshafi, býður upp á óviðjafnanlega náttúrufegurð, milt loftslag og fjölbreytta afþreyingu sem höfðar til ævintýragjarna ferðamanna.
Funchal, höfuðborg Madeira, er full af lífi og menningu. Göngutúr um bæinn leiðir þig fram hjá litríkum markaði, þar sem hægt er að kaupa ferskt grænmeti og ávexti beint frá bændum. Sögulegar byggingar og nútímalegir veitingastaðir eru víða og bjóða upp á allt frá hefðbundnum portúgölskum réttum til nýstárlegra matargerðartilrauna.
Blómaeyjan Madeira með fjölbreyttum gönguleiðum er liggja um þétt skóg- og fjalllendi með einstöku útsýni yfir haf og land er stórkostleg upplifun fyrir þá sem elska útivist. Hægt er að fara í siglingar, kafa í kristaltæru vatni og kanna heillandi lífríki sjávar.
Madeira hefur einnig upp á að bjóða rólegri afslöppun fyrir þá sem vilja hvíla sig. Heilsulindir, sólbaðsstaðir og kyrrlátir garðar bjóða fullkomna leið til að endurnýja sál og líkama. Með fjölbreyttum gistimöguleikum, frá lúxushótelum til heimilislegra gistiheimila, er eitthvað fyrir alla.
Það er ekki að undra að Madeira er að verða nýja uppáhaldseyja Íslendinga. Með sinni einstöku blöndu af náttúru, menningu og afþreyingu er eyjan fullkominn áfangastaður fyrir þá sem leita að nýjum ævintýrum í hjarta Evrópu.

Edinborg

Edinborg, heillandi höfuðborg Skotlands, býður gestum fullkomna blöndu af sögu, menningu og náttúrufegurð. Hún er þess vegna hrífandi áfangastaður fyrir þá sem dreymir um ógleymanlega ferð. Í þessu bloggi kynnumst við betur sígildum töfrum Edinborgar og búum til lista yfir það sem má að taka sér fyrir hendur í borginni, sniðinn að áhugamálum og þörfum fólks sem komið er á efri ár.
Saga og glæsileiki einkenna Edinborg þar sem hún breiðir úr sér um ávalar hæðir undir Sæti Artúrs, hömróttum leifum af æfafornu eldfjalli.

Edinborg: Saga í glæsilegri umgjörð

Borgin er skoskur kjörgripur með Gamla bænum (Old Town) frá miðöldum, mikilfenglegum Nýja bænum (New Town) og öflugu menningarlífi. Heimsókn til Edinborgar gefur fyrirheit um tækifæri til að slaka á, kanna nýjar slóðir og auðga andann. Hún er framúrskarandi áfangastaður fyrir fólk á efri árum, öll aðstaða og þægindi í borginni falla vel að þörfum eldri borgara og heimamenn taka vel á móti gestum.

Það er af nógu að taka í Edinborg:

1. Röltu um gamla bæinn

Byrjaðu ævintýrið í Edinborg með því að kynnast heillandi andrúmslofti á strætum Gamla bæjarins. Njóttu byggingarlistar frá fyrri öldum og röltu eftir Konunglegu mílunni (Royal Mile), aðalstrætinu í Gamla bænum; líttu í leiðinni inn á nær falin afgirt svæði og húsagarða sem geyma menjar um litríka fortíð borgarinnar.

2. Hrífandi útsýni frá Edinborgarkastala

Edinborgarkastali, sem trónir uppi á Kastalakletti (Castle Rock), er frægasta kennileiti Edinborgar og staður sem enginn má sleppa að heimasækja. Þar má sökkva sér niður í sögu Skotlands, sjá Krúnudjásnin og njóta hrífandi útsýnis yfir borgina. Að kastalanum er gott aðgengi og víða hægt að tylla sér niður.

3. Skoðaðu Holyroodhouse höllina

Heimsóttu hina glæsilegu Holyroodhouse höll við endann á Konunglegu mílunni, opinbert aðsetur breska konungsins í Skotlandi. Skoðaðu húsakynni í margra herbergja íbúð konungsfjölskyldunnar og njóttu þess að ganga um fagra hallargarða.

4. Fáðu þér sæti rétt hjá verslunargötunni

Garðarnir við Princes Street (Princes Street Gardens) í hjarta borgarinnar eru friðsæll staður með frábæru útsýni til Edinborgarkastala. Tylltu þér á bekk og njóttu hvíldar frá ys og þys og iðandi mannlífi á næstu strætum. Verslunargatan Princess Street skilur að Gamla og Nýja bæinn.

5. Taktu þér þinn tíma

Edinborg er víðkunn fyrir menningarhátíðir og fjölbreytt listalíf. Kynntu þér hvað er á dagskrá á viðburðum eins og Edinburgh Festival Fringe eða njóttu þess að bregða þér í leikhús. Víða er í boði afsláttur fyrir eldri borgara og gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða.
Edinborg, gædd töfrum liðinna alda, menningarverðmætum og áhugaverðum stöðum með hentugu aðgengi fyrir eldri borgara, er staður þar sem ferðamenn njóta tilbreytingar í Skotlandi, geta slakað á og kynnst ríkulegri menningu. Hvort sem þú ert á göngu um æfaforn strætin í Gamla bænum, skoðar þig um í mikilúðlegum köstulum eða gæðir þér á hefðbundnum skoskum réttum, máttu treysta því að Edinborg er staður þar sem bíður þín fjölbreytileg upplifun, sniðin að áhugamálum þínum og þörfum. Og þess vegna: Settu niður í ferðatöskuna, láttu hrífast af sígildum glæsileika Edinborgar og leggðu upp í minnisstæða ferð um hjarta Skotlands.

Calpe, gimsteinn Spánar

Ef þú ert að skipuleggja væntanlega ferð til Costa Blanca á Spáni þarftu að bæta Calpe við listann, smábæ við ströndina, 67 km frá Alicante, við jaðar Penyal d'Ifac landverndarsvæðisins.
Þegar við komumst á efri ár heldur áfram að freista okkar að fara í ferðalag, upplifa eitthvað nýtt, auðga andann og eignast dýrmætar minningar. Calpe, heillandi smábær við hafið á Costa Blanca á Spáni, er kjörinn áfangastaður fyrir eldra fólk sem leitar að slökun, ævintýrum og hreyfingu sem tekur mið af aldri og getu. Í þessu bloggi könnum við töfrandi heim í Calpe og búum til lista yfir það sem hægt er að taka sér fyrir hendur á þessum slóðum, sniðinn að áhugamálum og þörfum hvers og eins.

Calpe: Sannur demantur á Costa Blanca svæðinu

Í Calpe, mitt á milli Alicante og Valencia, er notalegt Miðjarðarhafs-loftslag, fallegar strendur og menjar um ríkulega sögu sem nær allt aftur til tíma Rómaverja. Tákn og kennileiti staðarins er Penyal d’Ifac (Ifac-klettur), 332 metra hár kalksteinsklettur sem gnæfir á verði yfir strönd-inni og setur sterkan svip á umhverfið. Vingjarnlegir heimamenn og friðsælt andrúmsloft gera Calpe að fullkominni umgjörð fyrir eldri borgara sem leita eftir hressandi og gefandi tilbreytingu.

Hvað er hægt að gera?

1. Njóttu dagsins á ströndinni

Eitt af því sem er skemmtilegast að gera í Calpe er að rölta í hægðum sínum meðfram Arenal-Bol-ströndinni. Mjúk sandfjaran er tilvalinn staður til að slaka á, liggja í sólbaði og hlusta á öldugjálfrið.
Gönguleiðin meðfram ströndinni er hellulögð og auðveld yfirferðar, jafnvel fyrir þá sem eru hreyfihamlaðir. Þá er hægt að setjast víða undir sólskyggni og njóta útsýnisins.

2. Gönguferð um gamla bæinn

Gamli bærinn í Calpe er heillandi völundarhús með þröngum strætum, litríkum húsum og skemmtilegum torgum. Röltu þarna um og gerðu hlé á göngunni með því að líta inn í kaffihús eða einhverja smáverslun.

Ekki sleppa því að skoða Iglesia Antigua (Gömlu kirkjuna) og staldra við á aðaltorginu, Plaza Mayor, þar sem þú getur fengið þér kaffibolla og horft á mannlífið.

3. Uppgötvaðu Penyal d’Ifac landverndarsvæðið

Þeir sem eru til í svolítið ævintýri ættu ekki að sleppa því að heimsækja Penyal d’Ifac landverndarsvæðið. Það getur reynst mörgum fullerfitt að komast alveg upp á topp á Ifac-klettinum en á svæðinu eru stígar, sem er vel við haldið, og gestir geta því skoðað sig um á sínum hraða.

Stórkostlegt útsýni til Miðjarðarhafs og sjálft umhverfið eru allrar fyrirhafnar virði. Ef þú ert ekki fyrir langar gönguferðir geturðu notið þess að skoða einstakt gróðurríki og dýralíf á svæðinu þar sem má finna meira en 300 tegundir af plöntum og fjölmargar fuglategundir.

4. Njóttu matarins

Spænsk matargerð er þekkt fyrir ljúffengt bragðið af réttunum og í Calpe er að finna fjölbreytilegt úrval af matsölustöðum þar sem hver og einn ætti að finna eitthvað við sitt hæfi og smekk.

Prófaðu rétti úr sjávarfangi staðarins á veitingastað við ströndina, t.d. paella og ferskan fisk beint af grillinu. Í mörgum matsölustöðum í Calpe er tekið sérstakt tillit til eldra fólks með góðu aðgengi og starfsfólkið er einkar greiðvikið.

5. Skelltu þér í siglingu

Kannaðu strendurnar í grennd við Calpe með því að bregða þér í siglingu.
Nokkrir aðilar bjóða bátsferðir með leiðsögumanni þar sem gefst færi á að taka lífinu með ró, verma sig í sólinni og njóta án fyrirhafnar náttúrufegurðar meðfram ströndinni. Og hafðu augun opin: Oft má sjá höfrunga að leik í sjónum.

6. Farðu á sögulegar slóðir

Baños de la Reina, „Drottningarböðin“, eru æfaforn staður, frá tímum Rómverja, þar sem eru ker og tjarnir sem notuð voru til fiskeldis.
Staðurinn bregður upp mynd frá ríkulegri fortíð Calpe og þar er tilvalið að eiga notalega stund. Gakktu um rústirnar og njóttu andrúmsloftsins við ströndina.

7. Skemmtun fyrir alla

Í Calpe eru haldnar fjölbreyttar hátíðir og efnt til margs konar menningarviðburða allt árið um kring.
Skoðaðu listann yfir árlega viðburði á staðnum til að finna dagsetningar fyrir viðburði eins og Hátíð Mára og Kristinna eða San Juan brennuna. Á hátíðum eins og þessum gefst tækifæri til að komast í nána snertingu við spænska menningu, tónlist og hefðir.

8. Njóttu þín

Í Calpe eru allmörg heilsuböð og heilsuræktarstaðir þar sem þú getur dekrað við þig með því að fara í nudd, heit böð og meðferðir sem styrkja og yngja kroppinn.
Gerðu þér dagamun með því að slaka vel á og hugsa vel um líkamann.

9. Lærðu jafnvel örlítið í spænsku

Hvernig væri að nota tækifærið og læra svolítið í spænsku á meðan þú ert í Calpe?
Í mörgum tungumálaskólum í Calpe eru haldin námskeið, sniðin fyrir eldri borgara, þar sem má kynnast betur tungu heimamanna og menningu staðarins á fræðandi og skemmtilegan hátt.

10. Býrðu yfir listhneigð?

Virkjaðu sköpunargáfuna með því að fara á vinnustofu fyrir list- og handiðn í umsjá lista- og handverksfólks á staðnum.
Á þessum vinnustofum gefst kostur á að læra ný handtök við allt frá málaralist til leirmunagerðar og búa til fallega minjagripi.
Fallegt umhverfi í Calpe, auðug saga og aðstæður og tækifæri, sem henta eldra fólki sem vill hafa eitthvað fyrir stafni, laða til sín ferðalanga í leit að slökun, hvíld og ævintýrum. Calpe hefur margt að bjóða, sniðið að áhugamálum og þörfum þínum, hvort sem þig langar til að njóta þess að að ganga meðfram ströndum Miðjarðarhafs, kynnast öðru vísi menningu eða njóta spænskrar matargerðar. Þess vegna skaltu setja niður í ferðatöskuna, upplifa ógleymanlegt ævintýri og uppgötva töfrandi heim í Calpe.